Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga hefur verið að rifja upp úr sögu Eurobasket og hefur verið að setja inn ansi skemmtilega pistla á Facebook síðu "Ísland á Eurobasket" Með góðfúslegu leyfi fáum við að birta þessa pistla hér a Karfan.is og þessi pistill fjallar um feiknarsterkt lið Spánverja og þeirra framgöngu á Eurobasket.
Gasol y sus amigos – Eurobasket Espana.
Spánn hefur oftar en ekki verið á eða við toppinn þegar kemur að stóru hópíþróttunum. Á einhverjum tímapunkti var Spánn handhafi allra stóru titlana í körfu, hand og fótbolta og var það eftir markvissa og skipulega vinnu heima fyrir.
Spánverjar spiluðu til úrslita á fyrsta Eurobasket árið 1935, andstæðingurinn var Lettland. Lettar höfðu betur og silfur því staðreynd.
Næstu verðlaun á Eurobasket komu árið 1973 og aftur var um silfurverðlaun að ræða eftir að Júgóslavía hafði haft betur. Eftir nokkur silfurverðlaun til viðbótar, 1983 og 1999 eftir úrslitaleiki gegn Ítölum og á heimavelli gegn Rússlandi 2007 var loks komið að gullinu. Þegar þarna var komið var ljóst að sú kynslóð sem var komin upp hjá Spánverjum var og er virkilega sterk, nokkrir heimsklassa leikmenn í öllum leikstöðum. Gullið á Eurobasket leit loksins dagsins ljós árið 2009 í Póllandi.
Nokkrum árum áður eða árið 2006 má samt segja að hápunktur, eða allavega einn af þeim hæstu, hafi komið er Spánverjar gerðu sér lítið fyrir og urðu Heimsmeistarar eftir úrslitaleik gegn Grikkjum. Bandaríkin lentu í 3. sæti. Þessi árangur gerði það að verkum að talsverð vonbrigði voru að liðið skyldi ekki ná að standa uppi sem Evrópumeistari á heimavelli í Madrid 2007. J.R. Holden leikmaður Rússlands sá til þess en kappinn sá ásamt Andrei Kirilenko léku frábærlega fyrir Rússa sem höfðu á endanum betur. Þegar Holden kom úr Bucknell háskólanum á sínum tíma munaði litlu að hann kæmi til Íslands en hann hóf ferilinn sinn í Belgíu.
Hér má sjá Spán tylla sér á topp heimsins:https://www.youtube.com/watch?v=1zCrwnb8XwU
Loksins Evrópumeistari – 2009
Eftir HM titilinn 2006, silfur á Ólympíuleikum í Bejing 2008 var komið að fyrsta Evrópumeistaratitli Spánar, loksins sögðu sumir. Það byrjaði ekki vel hjá Spánverjum en liðið tapaði gegn ungu liði Serbíu sem var nánast komið á byrjunarreit á þessum tíma, Ivkovic hafði verið kallaður á vettvang til að búa til nýtt serbneskt lið og væntingar fyrir þetta mót ekki háar. Eitthvað hafa þeir spænsku vanmetið Serbíu en fall er fararheill segir einhvers staðar og með það héldu Spánverjar áfram inn í mótið. Liðið tapaði einum leik til viðbótar og var það gegn Tyrklandi. Eftir leikinn gegn Tyrkjum var ekki horft til baka. Til marks um hversu sterkt spænska liðið varð þegar leið á voru úrslitin í leikjunum þegar komið var í fjórðungsúrslitin, undanúrslitin og úrslitaleikinn. Í 8-liða úrslitum hafði Spánn betur gegn stjörnumprýddu frönsku liði, 86:66, í undanúrslitum lágu Grikkir 82:64 og í úrslitaleiknum fengu Spánverjar tækifæri til að kvitta fyrir tapið í fyrsta leik mótsins gegn Serbíu sem átti ekki möguleika í senjorana, lokatölur voru 85:63. Bestu leikmenn Spánar voru Pau Gasol, Juan Carlos Navarro og Rudy Fernandes. Reyndar voru fleiri góðir enda frábær leikmannahópur.
Þjálfari Spánar á þessu móti var Sergio Scariolo, Ítali, sem m.a. hafði verið hjá Malaga þegar Pavel Ermolinskij samdi við það lið á sínum tíma. Sergio er aftur kominn á spænska bekkinn og verður með liðinu í Berlín.
Leikmenn til að fylgjast með hjá Spánverjum eru m.a. Pau Gasol sem flestir þekkja úr NBA boltanum, Rudy Fernandes, leikmaður Real Madrid og fyrrverandi leikmaður Portland Trailblazers í NBA, Sergio Llull, bakvörður frá Real Madrid, Sergio Rodríguez, leikmaður Real Madrid og Nikola Mirotic, leikmaður Chicago Bulls sem er að taka þátt í fyrsta skipti á stórmóti fyrir Spán. Nikola fæddist í Svartfjallalandi en kom til Spánar þegar hann var 14 ára en þá skrifaði hann undir samning við unglingalið Real Madrid.
Það verður óneitanlega skemmtilegt að sjá íslensku víkingana berja á spænsku senjorunum.



