Í dag eru aðeins tveir dagar þangað til EuroBasket hefst með pompi og prakt. Ísland leikur í B-riðli í Berlín og á laugardag er sjálfur opnunarleikurinn gegn heimamönnum í Þýskalandi. Uppselt verður í Mercedez Benz Arena þegar viðureign Íslands og Þýskalands fer fram og gert ráð fyrir um 1000 Íslendingum í stúkunni og hafa þeir verið hvattir til að mæta bláir í gegn á pallana.
Karfan.is tók hús á Benna Gumm sem verður einn sérfræðinga RÚV í HM-stofunni á meðan mótinu stendur en vitaskuld sýnir RÚV alla leiki Íslands á mótinu í beinni. Við freistuðum þess í fyrsta stað að fá Benna til að ímynda sér hvernig stemmningin væri núna í herbúðum okkar manna í Berlín.
„Þetta eru örugglega blendnar tilfinningar, ýmislegt sem fer í gegnum hugan og skrokkinn á mönnum þarna. Spenningurinn og tilhlökkunin tel ég að séu ráðandi umfram aðrar tilfinningar. Menn gera sér grein fyrir að við höfum engu að tapa! Væntanlega er einhver smá hnútur í mganum og pínu stress en ég tel að tilhlökkun og spenningur séu frekar ráðandi…svona ef maður á að reyna að setja sig í þessi spor.“
Hvað með opnunarleikinn gegn heimamönnum, einhver ætti nú stemmningin að vera á laugardag?
„Það verður gaman að sjá spennustigið hjá strákunum, ég tel að það hefði verið betra að fá heimamenn síðar í keppninni og mér finnst að þá hefðum við kannski átt meiri líkur gegn þeim. Við fáum Þjóðverja í fyrsta leik á þeirra heimavelli sem verður okkar fyrsti leikur í lokakeppni. Þetta finnst mér frekar óþægilegt en okkar snillingar finna örugglega leið til að stilla sig rétt af enda eru þarna menn sem hafa beðið eftir þessu tækifæri alla ævi og láta ekki spennustigið skemma fyrir sér.“
Benni verður með æskuvini sínu Inga Þór Steinþórssyni og Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur í sjónvarpssal RÚV þar sem mótinu verður gerð afar góð skil. „Það verða EM-stofa fyrir og eftir Íslands-leikina og á kvöldin verður önnur stofa þar sem kannski greining mun eiga sér stað en þetta er eitthvað sem við körfuboltafólk höfum beðið eftir í áratugi, að fá að eiga sviðið um stund og gera því svona flott skil.“
Þá minnum við einnig á sjónvarpsþátt RÚV í kvöld en hann er sá fimmti og síðasti í röðinni um landsliðið okkar og er á dagskrá kl. 21:35 eftir landsleikinn gegn Hollendingum í knattspyrnu og Kastljósið.



