„Ég hef aldrei komist í líkingu við neitt svona,“ sagði Helgi Magnússon við Karfan TV og auðheyrt á okkar manni að skipulagið hjá Þjóðverjunum og umhverfið hér í Berlín fyrir allt mótið væru til algerrar fyrirmyndar. Helgi og félagar í íslenska landsliðinu galla sig upp í dag kl. 15:00 að staðartíma til þess að glíma við Dirk Nowitzki og félaga í þýska liðinu í opnunarleik B-riðils í Berlín. Helgi sagði Karfan TV einnig að nú væri hann að stíga nokkur af síðustu sporum sínum á landsliðsferlinum og viðurkenndi að hann hefði alveg viljað fá þessa stund fyrr.




