Eftir fínan frídag í gær þar sem drengirnir fengu að hitta fjölskyldur og slaka á í jóga á æfingunni í gær. En átökin hefjast aftur í dag og óhætt er að fullyrða að verkefnið stækkaði um nokkrar tommur því Serbar eru næstir á dagskrá. Eftir að hafa staðið þarna niðri á gólfinu og verið í návígi við þessa menn er óhætt að líkja Serbunum við hreinræktuð arabísk verðlaunahross. Hæðin og kjötið á þessum mönnum er ekki hægt, eins og Einar Bolla myndi orða það.
Serbarnir eru ekki bara stórir og stæðilegir heldur einnig gríðarlega flinkir körfuknattleiksmenn og þess til sönnunar þá spiluðu þeir til úrslita á HM á Spáni fyrir ári síðan gegn Bandaríkjamönnum (en jú töpuðu). Valin maður í hverju rúmi hjá þeim og þar ber fyrst að nefna Herra Evrópukörfuknattleikur, Alexander Djordjevic þjálfara liðsins. Djordjevic hefur marga fjöruna sopið í bransanum, meðal annars spilaði hann með báðum risunum á Spáni á sínum ferli (Real, Barca) ásamt því að spila í NBA deildinni með Portland Trail Blazers. Djordjevic leiddi svo lið Serba að Evrópugulli árið 1995 þegar hann setti niður 41 stig í úrslitaleiknum.
Af leikmönnum þá er helst að nefna þeirra stór stjörnu Milos Teodosic sem spilar með liði CSKA Moskvu og hefur marg oft orðaður við lið í NBA deildinni en honum virðist líða vel í Rússlandi. Nemajna Nedovic er skotbakvörður sem spilar nú með liði Unicaja Malaga (tók plássið hans Jóns okkar 🙂 ) og svo tröllið niðri á blokkinni Miroslav Raduljica sem spilar með stórliði Panathinakos í Grikklandi. Og síðast en ekki síst er það Nemanja Bjelica sem hefur verið á kostum í leikjunum hingað til hér úti en hann kemur til með að spila í NBA deildinni á komandi leiktíð með liði Minnesota Timberwolves.
Af þessari upptalningu að dæma þá má augljóslega sjá að brekkan varð örlítið brattari. Síðasti leikur okkar við Serba var martröð ein í Nis í Serbíu þar sem liðið tapaði með 56 stigum, 30 ágúst 2012. En lið okkar er töluvert sterkara en þá, þeir eru allir heilir til heilsu samkvæmt heimildum og koma til leiks í dag með kassann spertan og eins og Haukur Helgi Pálsson sagði í viðtali, ætla sér sigur!
Stuðningsmenn liðsins hér úti hafa veri hreint út sagt ÓTRÚLEGIR!! Drengirnir hafa staðfest við undirritaðan að þeir finna verulega fyrir þessu og að það gefi þeim aukin kraft. 6. leikmaðurinn uppí stúku er talað um og erlendir miðlar farnir að hafa það á orð við okkur íslensku fjölmiðlamennina að þeir hafa varla upplifað annað eins líkt og eftir leik gegn Ítalíu. Fyrir utan það að hvetja lið sitt til dáða hefur okkar fólk hér úti verið landi og þjóð til sóma og það ber að hrósa því.
Upphitun stuðningsmanna er á Urban Spree og ætlar fólk að mæta um 12:00 og stilla saman strengi. ÁFRAM ÍSLAND!!



