Serbar eru snjallir kallar þegar kemur að körfuknattleik og það sýndu þeir gegn Íslandi í dag með öruggum 64-93 sigri á EuroBasket í Berlín. Serbar eru á toppi B-riðils með þrjá sigra og eru að senda skilaboð inn í framhaldið um að þeir ætli sér langt, ef ekki alla leið jafnvel. Íslenska liðið situr á botni riðilsins án sigurs en liðið hefur alveg klárlega unnið marga stóra sigra hér í Þýskalandi!
Logi Gunnarsson fór fyrir íslenska liðinu í dag með 18 stig, 3 fráköst og 1 stoðsendingu. Í þetta sinn vildu skotin okkar einfaldlega ekki niður, á köflum var sem lok hefði verið sett á körfuna og Serbar hefðu ugglaust fengið erfiðari dag en stundum virkar þetta svona, þau vilja ekki alltaf detta þessi skot.
Hinn stóri og stæðilegi Kuzmic opnaði leikinn með sveifluskoti yfir íslensku vörnina og Serbar komust síðan í 6-0 áður en Jón Arnór Stefánsson skellti niður þrist. Kalinic varði þar á undan glæsilega hraðaupphlaupstilraun hjá Pavel, mögnuð tilþrif en okkar menn létu það ekki draga kjarkinn neitt úr sér.
Serbar opnuðu fimlega íslensku vörnina framan af fyrsta leikhluta og komust í 11-3 en smám saman þétti íslenska liðið raðirnar og var farið að ná aftur þeim varnartakti sem það þekkist á. Fyrstu víti dagsins fóru niður en teig- og þriggjastigaskotin vildu einfaldlega ekki hlýða. Eftir 6 mínútna leik var Ísland 1-7 í teignum og 1-3 í þristum en Serbar voru ekkert að stinga af. Hlynur Bæringsson skoraði baráttukörfu er hann tippaði boltanum ofan í eftir frákast innan um serbnesku turnanna. Íslenska vörnin hefði mátt gera betur undir lok leikhlutans þegar Serbar settu yfir okkur flautuþrist og lokuðu fyrsta leikhluta 24-16. Það var ekki laust við að Serbar væru bara nokkuð gáttaðir á því hvað íslenska liðið gat haldið í við þá.
Lengi er von á einum og þannig var það þegar Logi Gunnarsson minnkaði muninn í 19-26 með þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta. Logi kom eldsprækur inn í leikhlutann og minnkaði aftur muninn í 23-31 með sóknarfrákasti og skoraði þar strax á eftir. Framan af öðrum leikhluta fór íslenska liðið nokkrum sinnum illa að ráði sínu og vanir menn eins og Serbar létu það svíða. Þeir serbnesku leiddu 32-42 í hálfleik þar sem Logi Gunnarsson dró íslenska vagninn.
Skotnýting okkar manna í fyrri hálfleik var dræm, 8-17 í teignum og 3-17 í þristum en til allrar hamingju voru menn búnir að finna hamingjuna á vítalínunni, vorum 8/7 í þeim efnum. Logi Gunnarsson var með 8 stig í hálfleik en þeir Hörður Axel Vilhjálmsson, Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru allir með 6 stig.
Á góðum köflum í fyrri hálfleik var íslenska vörnin stórkostleg, í tvígang brenndi vörnin upp 24 sekúndna skotklukkuna hjá Serbum og svoleiðis frammistaða er ekkert létt verk.

Pavel Ermolinski setti tvo þrista í þriðja leikhluta og ekki laust við að smá fargi væri af honum létt því nýtingin hjá kappanum hefur ekki verið góð þetta mótið. Í síðari hálfleik breikkuðu Serbar bilið hægt og þétt, það var svo sem ekki mikill hamagangur í þeim en Serbar voru við stýrið allan bíltúrinn og leiddu 48-67 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Miðherjinn Ragnar Nathanaelsson fékk góðar undirtektir í stúkunni þegar hann kom til leiks með rúmar sjö mínútur eftir. Ragnari tókst ekki að skora og hið sama gekk fyrir Axel Kárason en 10 leikmenn í íslenska liðinu komust á blað í dag. Serbar fóru yfir 30 stiga múrinn en íslenska liðið hélt honum í skefjum en varð þó engu að síður að fella sig við 29 stiga ósigur, 64-93.
Logi Gunnarsson gerði 18 stig í dag og var þrælgóður og tók auk þess 3 stig. Næstur honum var Hörður Axel Vilhjálmsson með 9 stig og Hlynur Bæringsson gerði 8 stig og tók 4 fráköst. Jón Arnór Stefánsson gerði aðeins 3 stig í dag á tæpum 18 mínútum en hann fékk hvíld allan síðari hálfleik.
Öllu á botninn hvolft er ekki hægt annað en að vera ánægður með frammistöðu drengjanna sem áttu flottar rispur gegn Serbum í dag en að þessu sinni var við ofurefli að etja. Vissulega hefðu skotin mátt detta…þau gera það bara á morgun!
Það er skammt stórra högga á milli því á morgun mætast Ísland og Spánn kl. 21 að þýskum tíma eða kl. 19 að íslenskum tíma.



