Fjórða umferðin fer fram í B-riðli á EuroBasket í dag og strákarnir okkar þeir fá hvert risaverkfnið á fætur öðru í fangið. Að þessu sinni eru það Spánverjar sem nýliðar Íslands í lokakeppninni fá að glíma við. Leikur Íslands og Spánar hefst kl. 21:00 að þýskum tíma eða kl. 19:00 að íslenskum tíma.
Við fáum Spánverjana brjálaða í fangið, þeir máttu fella sig við ósigur gegn Ítalíu í gær og það varð ítölsk þjóðhátíð hér í Berlín. Ítalir áttu frábæran leik og Pau Gasol var sá eini sem stimplaði sig inn til vinnu í liði Spánar.
Jón Arnór Stefánsson talaði um það eftir Serbaleikinn í gær að hann væri þess fullviss að orkan í íslenska liðinu yrði umtalsvert meiri í dag en í gær. Ísland mátti fella sig við 29 stiga ósigur gegn Serbíu og það var ekkert sem okkar menn þurftu að skammast sín fyrir, í raun var það magnað að fylgjast með Serbum að störfum enda afar slyngir leikmenn þar á ferð. Spánverjar ætla sér engu að síður sigur í dag og þurfa að klifra betur upp töfluna því ef áfram heldur sem horfir mæta þeir Frökkum í 16 liða úrslitum og það í Frakklandi, ætli flestir vilji ekki losna undan þeim leik enda Frakkar ósigraðir í A-riðli.
Við sjáum hvað setur, okkar menn fara á æfingu nú rétt fyrir hádegi og svo er leikurinn eins og áður segir kl. 21:00 (19:00 ísl. tími).
Mynd/ [email protected]



