spot_img
HomeFréttirÍtalir splæsa í aðra þjóðhátíð í Berlín

Ítalir splæsa í aðra þjóðhátíð í Berlín

Ítalir eru enn að hoppa og tralla í stúkunni í Mercedes Benz Arena eftir framlengdan 89-82 sigur á Þjóðverjum. Ítalir leiddu aðeins í samtals 4 mínútur í leiknum af 45 en það er ekki spurt að því þegar flautan gellur. Þjóðverjar fóru illa með boltann á lokasekúndum leiksins og Ítalir refsuðu grimmilega fyrir vikið. Danilo Gallinari sýndi af hverju hann er í NBA deildinni, eitursvalur á lykilstundum og skilaði niður rándýrum stigum.

Heimamenn tóku forystuna með Schröder beittann og komust í 13-7 og leiddu svo 22-17 eftir fyrsta leikhluta. Ítalir létu þó ekkert stinga sig af og náðu að jafna leikinn 42-42 með flottu hraðaupphlaupi þar sem Daniel Hackett kláraði vel með „upp og undir“ sniðskoti. 

Schröder var með 16 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar í hálfleik í liði Þjóðverja en hjá Ítölum var harðjaxlinn Alessandro Gentile með 11 stig og 3 fráköst en Gentile þessi hefur verið að spila vel á mótinu, gríðarlega sterkur leikmaður Olimpia Milano á Ítalíu. 

Munurinn á liðunum fór upp í 10 stig eftir 25 mínútna leik en þá fóru Ítalir að vinda upp á sig og náðu að minnka muninn í 54-59 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Hetja þeirra Ítala, Belinelli, var víðsfjarri gírnum sem hann hrökk í gegn Spánverjum svo þeir Gallinari, Gentile og Bargnani drógu vagninn en Þjóðverjameginn var Schröder kominn með 20 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. 

Ítalir voru ekki lengi að jafna í upphafi fjórða leikhluta 63-63. Undir lok þriðja og í byrjun fjórða hvíldu þeir Schröder og Nowitzki en komu fljótt inn til að taka lokasprettinn. Belinelli var orðinn þreyttur á frammistöðuleysi sínu til þessa í leiknum og stýrði áhlaupi sem kom Ítölum yfir 68-69 þegar fimm mínútur voru til leiksloka

Næstu fimm mínútur voru æsispennandi og hnífjafnar, Þjóðverjar komust í 76-74 þegar 20 sekúndur lifðu leiks. Í ranni Ítala var það Gallinari sem fékk boltann að sjálfsögðu og skilaði sínu, ekkert sett upp bara Gallinari að búa sér til pláss og hamra niður risavöxnum „jumper.“ Staðan 76-76 og 3,6 sek. eftir af leiknum. Lokasókn Þjóðverja var ekki nægilega vel útfærð en Schröder hafði það af að brjótast í gegn en skotið vildi ekki niður og því varð að framlengja í fyrsta sinn í B-riðli í þessari keppni. 

Nowitzki tók til sinna ráða, gerði fjögur fyrstu stig Þjóðverja í framlengingunni og Paul Zipser jafnaði síðan leikinn 82-82 með troðslu og það fór allt á hliðina í höllinni, furðulegt nokk…þá gerði leikur Þjóðverja það líka. Gallinari kom Ítölum í 84-82 með stökkskoti en heimamenn tapa boltanum í næstu sókn svo Belinelli skellti sér yfir og kokkaði upp þrist 87-82 og þar með var björninn bara unninn. Til að bæta gráu ofan á svart misstu Þjóðverjar boltann aftur frá sér og Ítalía lokaði verkinu 89-82. Sterk frammistaða Ítala á lokasprettinum en heimamenn í Þýskalandi mega heldur betur syrgja aðgerðir sínar á lokasekúndunum. 

Danilo Gallinari gerði 25 stig og tók 9 fráköst í liði Ítala og Marco Belinelli mætti til vinnu þegar allt var í járnum og kláraði með 17 stig og 2 fráköst. Hjá Þjóðverjum var Dennis Schröder með 29 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst en hann var einkar ósáttur við sitt hlutskipti undir lokin og hafði mögulega eitthvað til síns máls þegar hann bað um villu en sá bara undir hælana á Ítölum fara yfir og gera út um leikinn.

Tölfræði leiksins

Mynd/ [email protected] – Danilo Gallinari var eitursvalur í kvöld og setti nokkrar risavaxnar körfur fyrir Ítali. Þeir hjá Denver mega prísa sig sæla að hafa samið við hann fyrir EuroBasket því þetta gæti hafa vippað honum upp um launaflokk. 

Fréttir
- Auglýsing -