Jaxlarnir í íslenska körfuboltalandsliðinu máttu þola 73-99 ósigur gegn Spáni í kvöld. Aðeins munaði fimm stigum á liðunum í hálfleik en Spánverjar gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta en þeir þurftu þó þennan drjúga tíma til þess að ráða DaVinci-lykilinn okkar í kvöld. Það sætir stórkostlegri furðu að Ísland í fyrsta sinn á EuroBasket skuli rúlla yfir eina merkustu körfuboltaþjóð heimsins í stúkunni, eitthvað hljóta þeir að hafa unnið sér til syndanna heimafyrir því það var nánast ekki hræða að styðja við bakið á einu besta landsliði heims.
Ekki stóð á stuðningnum í stúkunni Íslandsmegin sem var frábær allan tímann og það skein úr hverju andliti leikmanna sem og stuðningsmanna að hér væri verið að framkvæma leik sem allir væru gríðarlega stoltir af þrátt fyrir lokaniðurstöðuna.
Jón Arnór Stefánsson var að spila í stórum leik og hann spilaði stórt, sýndi af hverju hann er besti körfuknattleikmaður sem við höfum átt! Að dómi undirritaðs er hann einn besti bakvörður riðilsins.
Haukur Helgi Pálsson opnaði leikinn með góðu gegnumbroti en Nikola Mirotic, fréttamatur síðasta sólarhrings, svaraði með þrist og tók við að draga Spánarvagninn sóknarlega. Hlynur Bæringsson var að finna sig vel á báðum endum vallarins, laglegt sveifluskot á blokinni hjá fyrirliðanum minnkaði muninn í 4-5. Mirotic var okkar mönnum illur viðureignar en hann fékk fljótt tvær villur á Hauk Helga Pálsson.
Íslenska liðið var ekki að tengja þristana sína, fyrsti þristurinn kom ekki fyrr en í áttundu tilraun og þar var Pavel Ermolinski að verki en hann skellti niður tveimur í leikhlutanum en tilþrif fyrsta leihkluta átti Hlynur Bæringsson þegar hann snéri af sér Felipe Reyes, missti reyndar sniðskotið en það var í góðu því hann blakaði því aftur niður. Spánverjar leiddu 16-20 að loknum fyrsta leikhluta þar sem þeir Hlynur og Pavel voru báðir með 6 stig í íslenska liðinu en Mirotic var með 14 af fyrstu 20 stigum Spánar!
Spánverjar teygðu muninn í 20-28 en þá kom besti kafli Íslands í leiknum, 11-0 áhlaup á Spánverja sem lauk með þrist frá Jóni Arnóri og staðan 31-28! Spánverjar kunnu því illa að láta nýliðana sundurspila vörnina sína og hertu róðurinn, lokuðu fyrri hálfleik 36-41.
Jón Arnór var með 12 stig í hálfleik og Pavel Ermolinski sem var að finna sig vel fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik. Bulls-félagarnir Mirotic og Gasol voru okkur erfiðir, Mirotic með 14 stig í fyrri og Gasol 12.
Í þriðja leikhluta kom þessi kafli sem við höfum átt í basli með á mótinu, Spánverjar fóru að þjarma að okkur og á köflum fór íslenska liðið óvarlega í sínum aðgerðum. Spánn opnaði þéttofna íslenska vörn vel og náðu þeir spænsku að setja 33 stig yfir íslensku vörnina. Þetta gerðu þeir með því að þjarma aðeins að bakvörðunum okkar og þó Spánverjar væru 55-74 yfir eftir þriðja leikhluta þá beit það ekki á okkar menn, þeir héldu bara áfram eins og þeir gera alltaf. Haukur Helgi Pálsson minnti vel á sig í leikhlutanum og setti þrjá sterka þrista yfir spænsku vörnina, líkast til hefur einhver glósað það skilmerkilega hjá sér. Hlynur Bæringsson var frábær í kvöld og hann lokaði leikhlutanum með sóknarfrákasti sem hann blakaði í körfuna en hún var síðar dæmd af.
Í fjórða leikhluta hélt íslenska liðið áfram að framkvæma sína hluti, Mirotic og Gasol fengu hlé og fylgdust með af tréverkinu en saman gerðu þeir 43 af fyrstu 80 stigum Spánar í leiknum. Ægir Þór Steinarsson átti tvö öflug gegnumbrot og vílaði það ekki fyrir sér að æða á vörn Spánar, virkilega vel gert hjá Geitungnum en Ísland varð samt að þola 73-99 lokatölur.
Jón Arnór Stefánsson gerði 17 stig, tók 4 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í leiknum. Næstur honum var Haukur Helgi Pálsson með 14 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar og Pavel Ermolinski var með 12 stig og 3 fráköst. Hlynur Bæringsson var með 8 stig og 8 fráköst og var virkilega flottur í baráttunni við Gasol.
Vissulega voru strákarnir sáttir með stuðninginn úr stúkunni en þá langar í sigur og hver veit nema að allur þessi lærdómur upp á síðkastið hafi hjálpað liðinu í því að finna lykilinn að sigri hér úti.
Enn eitt magnað kvöld að baki í Berlín og íslenskur körfuknattleikur hefur unnið fjölda sigra á vegferð sinni hér ytra. Ísland leikur svo aftur annað kvöld en það er þá lokaleikur okkar í riðlinum og er hann gegn Tyrkjum kl. 21:00 að staðartíma eða kl. 19:00 að íslenskum tíma. Með tapinu í kvöld er ljóst að Ísland er ekki á leið til Frakklands og kemst ekki upp úr B-riðli en liðið hefur boðið upp á hverja magnaða frammistöðuna á fætur annarri.



