spot_img
HomeFréttirSpánn skyldi gestgjafana eftir í Berlín

Spánn skyldi gestgjafana eftir í Berlín

Spennuslag Spánar og Þýskalands var að ljúka í B-riðli á EuroBasket þar sem Spánn slapp með nauman 77-76 sigur og skyldi þar með Þjóðverja eftir í B-riðli. Með þessu varð ljóst að Ísland og Þýskaland munu sitja eftir en hin fjögur liðin, Serbía, Ítalía, Spánn og Tyrkland eru örugg áfram.

Þjóðverjar leiddu 20-18 eftir fyrsta leikhluta og hávaðinn í höllinni ætlaði allt að yfirkeyra, þvílík stemmning hjá Þjóðverjunum. 

Spánverjar voru nokkuð fljótir að koma sér í forystuna aftur í öðrum fjórðung en þó engin afgerandi forysta og staðan 26:30 þegar um 5 mínútur voru til hálfleiks. Sergio Rodriquez var hvað eftir annað að láta varnarleik heimamanna líta illa út með nokkuð einföldum gabbhreyfingum og lagði hann svo snyrtilega í körfuna.  Hinumegin var Dennis Schröder að hitna fyrir heimamenn. 

Spánverjar leiddu í hálfleik 38-41 og virtust í síðari hálfleik ætla að klára verkefnið nokkuð örugglega því þeir leiddu 48-60 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Framan af fjórða var fátt sem benti til þess að naglbítur væri í vændum en vel tímasettir þristar komu Þjóðverjum aftur á sporið. 

Sergio Llull hélt Spáni við efnið og Spánverjar settu svo Schröder á línuna þegar 9,4 sekúndur lifðu leiks og hann minnkaði muninn í 74-75. Bæði lið voru komin með skotrétt og Þjóðverjar brutu á Llull sem brást ekki bogalistin á góðgerðarlínunni og jók muninn í 74-77. Í næstu sókn Þjóðverja gerðust Spánverjar sekir um slæm mistök þegar þeir brutu á Schröder í þriggja stiga skoti, leikstjórnandinn öflugi setti fyrstu tvö vítin niður en brenndi af því þriðja, Spánverjar tóku frákastið og tíminn rann út í sandinn, lokatölur 76-77 Spáni í vil. 

Þjóðverjar úr leik en Spánverjar á leið til Frakklands. Dennis Schröder átti flottan dag í liði Þjóðverja með 26 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar og Dirk Nowitzki gerði 10 stig og tók 7 fráköst í sínum síðasta landsleik fyrir Þjóðverja. Hjá Spáni var Sergio Rodriguez stigahæstur með 19 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og Pau Gasol gerði 16 stig, tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins 

Fréttir
- Auglýsing -