Við unnum ekki leik þetta sinnið á EuroBasket og vissulega sveið 102-111 framlengt tap gegn Tyrkjum í kvöld en sigrarnir sem íslenskur körfuknattleikur hefur unnið síðustu misseri eru óteljandi. Án alls vafa er Ísland spútniklið B-riðils sem fékk ævafornar körfuknattleiksþjóðir til þess að efast um eigið ágæti. Liðið með hæsta meðalaldurinn var Ísland og reynsluboltarnir okkar skildu allt sem þeir áttu eftir á parketinu í Mercedes Benz Arena. Framganga íslenska liðsins í mótinu var í raun ekkert annað en mögnuð og leikmenn liðsins töluðu mikið um það eftir leik hve freistandi það yrði nú að tryggja sér sæti á EuroBasket 2017!
Í kvöld var allt lagt undir, í raun var það bara tuðran sem vildi oft ekki drattast í gegnum hringinn og Tyrkir náðu þar af leiðandi að slíta sig frá og hafa okkur undir í framlengingunni. Það sem svo gerðist þegar lokaflautið gall er ekkert annað en ævintýraleg stund því íslenska landsliðið var ekki bara stutt af Íslendingum í stúkunni heldur voru þar Serbar, Þjóðverjar, Ítalir og fleiri sem hrifust með og „hakan í gólf“ stundin var þegar stúkan og liðið sungu saman „Ég er kominn heim“ leidd áfram af meistaranum Óðni Valdimarssyni í hallargræjunum.
Jón Arnór Stefánsson landaði fyrstu fjögurra stiga sókn Íslands á mótinu þegar hann snemma leiks kom Íslandi í 7-6 með þrist og fékk villu að auki og við þessar aðstæður má ekki annað en setja niður vítið sem og hann gerði. Íslenska liðið mætti af krafti til leiks en það gerði Cedi Osman líka og gerði 8 af fyrstu 12 stigum Tyrkja sem leiddu 10-12. Fyrstu tveir þristar Íslands fóru niður sem var einkar hressandi en það var ekki jafn hressandi að Ali Muhammed skyldi vera að setja niður allt sem hann fleygði á loft og því leiddu Tyrkir 22-29 eftir fyrsta leikhluta.
Íslenska vörnin tók því sem alþjóðlegri móðgun að fá á sig 29 stig í fyrsta leikhluta og okkar menn svöruðu strax í öðrum leikhluta. Best að byrja þetta bara með troðslu hjá Hauk, þrist frá Jakobi, teigkörfu frá fyrirliðanum og Haukur lokaði svo sjokkstöð þeirra Tyrkja með þrist og Ísland leiddi 32-29 og Tyrkir hlupu inn í leikhlé til að spyrja út í þetta Skandinavíuveður sem skall á þeim. Þvílík rispa og þvílíkur hamagangur þessar fyrstu tvær mínútur hjá íslenska liðinu.
Logi Gunnarsson fann einnig fjölina og Martin Hermannsson kom svellkaldur inn og byrjaði bara á því klukka inn fjögur stig og svona voru menn að standa sig um allan völl. Tyrkir höfðu skotist framúr á ný en Pavel dró okkur nærri með þrist 44-45 en Tyrkir komust í 44-47. Haukur Helgi Pálsson sá þó til þess að liðin færu jöfn inn í hálfleik með flautuþrist 47-47 og stúkan ærðist! Ofboðslega flott sókn þar sem boltinn gekk hratt og tyrknesku vörninni var splundrað upp á gátt!
Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í íslenska liðinu í hálfleik með 12 stig og 3 stoðsendingar og þá var Logi Gunnarsson með 8 stig og liðið í dúndurformi þar sem sigurviljinn brann í augum leikmanna.
Í upphafi þriðja komust Tyrkir í 62-68 og leiddu 67-74 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Það er í raun ekkert til neins að telja einhvern sérstaklega upp í kvöld því allir voru að leggja sig miku meira en 100% fram. Ali Muhammed gerði okkur þónokkrar skráveifur og var oftar en ekki ásamt hinum hávaxna Erden sem reyndust okkur þungir.
Fjórði leikhluti var rússíbanareið frá upphafi til enda. Tyrkir héldu margoft að þeir hefðu komist upp til að anda en Ísland kippti þeim jafnharðan ofan í laugin og glíman hélt áfram. Tyrkir leiddu með sjónarmun en seiglan í landsliðinu er lygileg og þegar Logi Gunnarsson vippaði sér upp í afar erfitt þriggja stiga skot og jafnaði leikinn 91-91 ætlaði allt um koll að keyra í höllinni! Þetta var svaðalegt skot og tryggði framlengingu eftir að lokatilraun Muhammed til að „lobba“ yfir Ragnar Nathanaelsson misheppnaðist. Framlengt!
Í framlengingunni voru það Tyrkir sem skoruðu fyrst, hægt og bítandi tókst þeim að slíta sig frá Íslandi og það verður að segjast að þau voru þónokkur skotin sem hreinlega dönsuðu af hringnum. Það var eini munurinn á liðunum í framlengingunni, tuðran vildi ekki niður og Tyrkir unnu 102-111.
Eins og áður hefur komið fram átti landsliðið ævintýralega stund með stuðningsfólki sínu sem kom einkum og sér í lagi frá Íslandi en seiglan í okkar mönnum aflaði þeim stuðningsmanna víðar að! Þessi stund verður lengi í hávegum höfð.
Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 22 stig og næstur honum kom Haukur Helgi Pálsson með 18 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar en hann lék ekki síðustu 10 mínútur leiksins vegna meiðsla sem var skarð fyrir skyldi. Logi Gunnarsson gerði 16 stig í leiknum og þá var Jón Arnór Stefánsson með 14 stig, 4 fráköst og 8 stoðsendingar. Liðið í heild var frábært, samstillt vél sem gaf allt í verkefnið og krafðist athygli risanna í sportinu!
Nú segja okkar menn skilið við EuroBasket og það er hreyfingarinnar að vinna sem allra best úr þessari niðurstöðu til þess að tryggja að íslensk landslið geti haldið áfram að mæta þeim bestu. Það er ekkert smá verk en um leið það eftirsóknarverðasta.
Skúli Sigurðsson, Hörður D. Tulinius og Jón Björn Ólafsson þakka fyrir sig í Berlín!
#ÁframÍsland



