Óhætt er að segja að Pau Gasol hafi verið vel volgur þegar hann mætti til leiks í Frakklandi í dag með liði Spánverja gegn Pólverjum. Pólverjar náðu að stríða Spánverjum 10 mínútum meira en við Íslendingar en í fjórða leikhluta tóku Spánverjar yfir og sigruðu að lokum 80:66 þar sem Pau Gasol setti 30 stig og var með um 80 prósent nýtingu úr öllum skotum sínum (78% tveggja, 71% þriggja, 86% víti)
Í hinum B-riðlis leik dagsins voru það dauðþreyttir Tyrkir sem tóku á móti fyrnasterkum gestgjöfum Frakka. Frakkar leiddu megnið af leiknum og í seinni hálfleik fóru þeir hreinlega á kostum og völtuðu yfir Tyrki sem augljóslega voru dauðþreyttir eftir framlengdan leik gegn Íslendingum fyrir tveimur dögum síðan. Niðurstaða leiksins varð 76:53 sigur Frakka. Erfitt er að tína einn leikmann sem skaraði frammúr í þessu Frakka liði. Þetta virkaði allt líkt og vel smurður "Cummins" og sama virtist vera hver kom inná það voru allir með sitt á nótunum. Milwaukee Bucks maður þeirra Tyrkja, Ilyasova var stigahæstur þeirra með 14 stig.
Það voru svo Lettar sem slógu út Slóvena 73:66 og svo hinsvegar fóru Grikkir illa með sterkt lið Belga, 75:54.
Það er því ljóst að Spánverjar koma til með að mæta Grikkjum á þriðjudag og sama dag leika svo Frakkar gegn Lettlandi.



