Fjórir síðustu leikir í 16. liða úrslitum EuroBasket fóru fram í Lille í dag. Dagurinn hófst á því að Tékkar hreinlega óðu yfir forna stórþjóð Króata á skítugum skónum. 80:59 varð lokaniðurstaðan í þeim leik en mest fór munurinn í 30 stig. Króatar náðu að bjarga andlitinu með ágætis þriðja fjórðung en það er nokkuð ljóst að þú ferð ekki með sigur þegar þú tapar 24 boltum í slíkum leik. Jan Vesely var stigahæstur Tékka með 20 stig en Mario Hezonja var skástur í slöku liði Króata með 10 heil stig.
Annar leikur dagsins var svo leikur Finna og Serba. Margir bjuggust jafnvel við stórum og auðveldum sigri Serba en tröllinn úr austri þurftu svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Allt fram í byrjun þriðja fjórðungs var leikurinn nokkuð jafn en þá hreinlega skiptu Serbar um gír og völtuðu yfir lánlausa Finna sem vissu varla hvað hafði skeð þegar munurinn var allt í einu komin í 20 stig á örskotstundu. Miroslav Raduljica sýndi mátt sinn í þessum leik og setti 27 stig, illviðráðanlegur í teignum (spurjið bara Hlyn) en hjá Finnum var það Sasu Alin með 26 stig.
Þriðji leikur dagsins var svo annað lið úr B-riðli, Ítalir sem spiluðu gegn Ísrael. Fyrirfram var búist við að þessi leikur yrði í járnum allt fram til loka. En jójó lið Ítala gersamlega valtaði yfir andstæðinga sína og ekki einu sinni "Mossarnir" hefðu getað bjargað Ísraelum úr þessum leik. 82:52 var lokastaðan í þessum leik þar sem að Alessandro Gentile (körfubolta útgáfa þeirra af Gattuso) fór fyrir Ítölum og setti niður 27 stig en hjá Ísrael var það Gal Mekel sem skoraði 20 stig.
Í síðasta leik dagsins mættust Litháen og Georgía. Ekta austantjalds rimma þar sem slegist var til síðustu mínútu. Litháar virtust vera með leikinn í hendi sér þegar þeir höfðu komið sér í þægilegt 7 stiga forskot á lokasprettinum en með seiglu tóks Georgíu mönnum að klóra sig inní dæmið og aðeins 1 stig skildi liðin þegar um 37 sekúndur voru til leiksloka. Það var svo framherji Real Madrid, Jonas Maciulis sem setti niður erfiðan þrist þegar 11 sekúndur voru til loka leiks og það dugði svo Litháum.
Úrslitin í 16 liða úrslitum sýna svo ekki verður um villst hversu sterkur B-riðill okkar Íslendinga var því þrjú af fjórum liðum eru komin í 8 liða úrslit. Og mögulega gætu öll þessi þrjú lið verið í fjögurra liða úrslitum.
Serbar koma til með að mæta Tékkum og svo Ítalía sem spila gegn Litháen í 8 liða úrslitum.
Mynd/Hörður: Gentile í leik gegn Serbum



