Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson hefur nú verið í rúman mánuð í Frakklandi með liði sínu St. Clement í NM2 deildinni. Ólafur sagði við Karfan.is að liðið væri búið að leika um fimm æfingaleiki og einn bikarleik. Ólafur æfði með íslenska landsliðinu í sumar frá Smáþjóðaleikunum og inn í sumarið en komst ekki í lokahópinn. Aðspurður um liðið á EuroBasket sagði hann fyrst: „Vá“
„Það gengur allt mjög vel hér úti, þjálfarinn er flottur sem og liðsfélagarnir og það virðist vera mjög gott fólk í kringum klúbbinn. Ég er búinn að vera hér í rúman mánuð núna og líkar bara vel en það tók smá tíma að koma sér inn í aðra rútínu sem maður er ekki vanur. Þetta er ekki beint lengur að vakna og mæta í vinnuna kl. 08:00. Núna er maður að fara snemma á fætur, skjóta, lyfta og svo finna sér eitthvað til dundurs fram að æfingu eða leik. Nú er maður bara að vinna við það að spila körfubolta sem hefur alltaf verið draumurinn og ég er bara enn að ná því að það sé byrjað hjá mér,“ sagði Ólafur sem þegar hefur spilað sex leiki með St. Clement.
„Við lékum einn bikarleik við Pro B lið og það leit ekki vel út til að byrja með, okkur gekk illa að skora og þeir skoruðu þegar þeir vildu. Við töpuðum 80-61 en ég setti 21 stig í leiknum en auðvitað er maður alltaf til í að skipta, skora minna og vinna. Annars er þetta allt að smella hjá okkur og mér líst vel á tímabilið sem hefst 26. september. Ég fæ unnustuna mína hingað út 17. september, það verður gott,“ sagði Ólafur eftir ríflega mánaðar einsemd ytra.
Aðspurður um íslenska landsliðið sagði Ólafur fyrst: „Vá“ – en Ólafur eins og margir aðrir Íslendingar fór gersamlega á límingunum þegar Logi smellti „Ég er kominn heim“ þristinum á Tyrki.
„Þegar ég kom til Frakklands var verið að spyrja mig um landsliðið og í hvaða riðli það væri. Ég byrjaði að telja upp Spánn, Serbía, Ítalía … og komst ekki lengra því þá fóru menn bara að hlægja og sögðu mér að þetta yrði slátrun. Ég benti þeim bara á að fylgjast með því íslenska liðið ætti eftir að koma á óvart, ég vissi auðvitað hvernig bolta þeir myndu spila, sókn og vörn, svo þegar þú blandar saman trúnni og geðveikinni sem við höfum þá erum við til als líklegir og sýndum það svo sannarlega.
„Við áttum séns í fjórum leikjum af fimm, eftir Þýskalandsleikinn sögðu Frakkarnir hérna að við höfðum verið heppnir því Þjóðverjar hafi verið slakir í þeim leik. Svo kom Ítalíuleikurinn og þá vorum við allt í einu orðnir sæmilegir og svo fannst þeim við bara góðir eftir leikinn gegn Spáni. Tyrkjaleikurinn þegar Logi setti þennan þrist…ég hef ekki fagnað einni körfu svona mikið í langan tíma svo ég held bara að við séum komin til að vera! Ekki bara í körfu heldur erum við komin til að vera í fótbolta og handbolta líka,“ sagði Ólafur sem tekur undir með kollega sínum úr landsliðinu.
„Ég vil taka undir þessa áskorun Harðar Axels á þessa eldri leikmenn landsliðsins að vera tvö ár í viðbót og taka slaginn.“



