spot_img
HomeFréttirÉg er kominn heim

Ég er kominn heim

Svali Björgvinsson nefndarmaður úr afreksnefnd KKÍ var einn af þeim sem hreinlega slepptu sér í stúkunni þegar Íslendingar spiluðu í Berlín nú fyrr í mánuðinum. Myndir frá viðburðinum staðfesta það.  En Svali var þarna hluti af öðrum ca 1000 Íslendingum sem gerðu nákvæmlega það sama.  Um fágætt æði má segja að hafi runnið á körfuknattleiksheim Evrópu. Miðlar allt frá Spáni til Serbíu fjölluðu um íslensku víkingana og sigur þeirra….já SIGUR þeirra í þessum dauðariðli þrátt fyrir að hafa ekki unnið einn einasta kappleik. 

Við fengum Svala Björgvinsson til að rita nokkur orð um ævintýrið í Berlín og framtíðina eftir Eurobasket 2015. 

 

Þegar Logi Gunnarsson jafnaði leikinn gegn Tyrkjum, 91 – 91, þá snerti íslenskur körfuknattleikur himnaríki um stund. Allir þeir sem tóku þátt eða fylgdust með leiknum af eðlilegri athygli fengu snert af alsælu. Margir hafa lýst þessu augnabliki betur en ég kann. En fyrir þá sem fylgjast með æðri listum eins og körfubolta er það einfaldlega ógleymanlegt að sjá stóran hóp fólks, vel gefið, snyrtilegt og fallegt fólk, fagna af barnslegri einlægni eftir tapleik. Hvað þá eftir fimm tapleiki í röð. Mér er til efs að það hafi gerst áður eða verði endurtekið. En fagnaðarlætin voru einlæg og verðskulduð. Allir stóðu saman; laglausir sungu, bakveikir hoppuðu og hálsveikir góluðu. Jafnvel hópur einbeittra íslenskra dómara gleymdi sér á leikjunum: þeir trölluðu eins og í lokuðu dómarateiti eftir miðnætti. 

 

Körfubolti hefur breyst mikið síðastliðin 20 ár. Hefðbundin hlutverkaskipan og leikstöður hafa breyst; fjölhæfni er orðin miklu meiri. Þessi breyting gerir meiri kröfur til leikmanna og hæfni þeirra en áður var. Þetta kemur skýrt fram í leik okkar: við skiptum á öllum hindrunum í vörn og leikmenn þurfa að leysa allar stöður. Í mínum huga lék íslenska liðið nánast hinn fullkomna leik á þessu móti. Leikstíll og skipulag hæfir þessu liði og þessum leikmönnum fullkomlega. Þegar leikið er með þeim hætti, og að auki af fullum ákafa og drengskap, þá er eðlilegt að fagna og gleðjast innilega, óháð því hvort sigur vinnst eða ekki. Ég er þess ennfremur fullviss að leikurinn fagri muni þróast í átt að enn frekari fjölhæfni. Það er einnig sannfæring mín að eftir 20 ár muni körfuknattleikur verða a.m.k. jafn vinsælustu íþrótt í heimi að útbreiðslu og áhorfi. 

 

Mikilvægasta spurningin sem körfuknattleikshreyfingin þarf að svara er hins vegar, hvað svo? Hvað gerist eftir Berlín? Hvernig getum við byggt ofan á þennan árangur? Eurobasket 2015 er hvorki upphaf né endir á vegferð okkar, heldur frábær kafli. Í mínum huga getur Eurobasket 2015 orðið fyrir körfuboltann líkt og gosið í Eyjafjallajökli var fyrir ferðaþjónustuna. Eurobasket hefur opnað augu og eyru margra sem ekki þekktu leikinn góða og kosti hans. Mig langar að nefna fjögur atriði sem þarf að uppfylla til að við getum nýtt okkur þann kraft sem myndaðist í Berlínargosinu. 

 

1. Það ætti að vera krafa (eins langt og hægt er að gera kröfur á aðra) okkar að þeir leikmenn sem tóku þátt í Eurobasket 2015 gefi áfram kost á sér til að spila fyrir Ísland og verði áfram góðar fyrirmyndir annarra leikmanna og yngri iðkenda. Vissulega er það háð því að heilsa og aðstæður fjölskyldu leyfi. Auðvitað verður eðlileg endurnýjun, en kjarninn þarf að vera áfram.

 

2. Við verðum að fjölga enn frekar yngri iðkendum. Einhver af þeim ungu piltum og stúlkum sem koma á sína fyrstu æfingu í vetur munu sennilega berjast um sæti í landsliði eftir 15 ár. Landsliði sem gæti verið á leið á Eurobasket 2029. Öllum er ljóst að rætur leiksins, landsliðs og uppbyggingar liggja í því að fjölga iðkendum og kenna þeim leikinn fagra af ábyrgð. Markmið okkar ætti að vera 10.000 iðkendur árið 2018. Framtíð og endurnýjun leiksins liggur alltaf og mun alltaf liggja í góðu starfi með börnum og byrjendum.  Ég get rétt ímyndað mér hversu stoltir þeir þjálfarar sem aðstoðuðu núverandi landsliðsmenn að stíga sín fyrstu skref, fyrir 15-20 árum, hljóta að vera í dag. Það er með körfuknattleik eins og önnur fræði að grunnur að mikilli þekkingu á leiknum felst í markvissri kennslu og endurtekningu.

 

3. Það verður að fjölga þeim sem starfa í stjórnum félagsliða. Það er von mín og vissa að ef vel er haldið á spilum þá geti Berlínargosið orðið hvatning fyrir sjálfboðaliða að taka þátt í uppbyggingu leiksins á öllum stigum. 

 

4. Það þarf markvissari þjálfun og skipulag fyrir aldurshópinn 17-20 ára. Í þeim aldursflokki hefur verið of mikið brottfall og oft skort á skipulag. Það gerir það að verkum að framfarir okkar krakka á þessum árum eru ekki eins miklar og best gerist hjá öðrum þjóðum.

 

Að lokum langar mig að óska öllum góðs gengis í vetur í leik sínum. Ég hef fulla trú á að körfuknattleikur, sem móðir íþrótta, dafni vel á tímabilinu.

 

Svali H. Björgvinsson

Fréttir
- Auglýsing -