spot_img
HomeFréttirStefan Bonneau úr leik hjá Njarðvíkingum

Stefan Bonneau úr leik hjá Njarðvíkingum

Ekkert verður af því að Stefan Bonneau leiki með Njarðvíkingum í vetur því nú á þriðjudag lenti kappinn í því að slíta hásin við æfingar. Njarðvíkingar eru því komnir á byrjunarreit í sínum kanamálum þar sem Bonneau þarf nú að gangast undir aðgerð og svo að jafna sig á því.  Slík meiðsl geta haldið mönnum frá í 6-12 mánuði en það fer allt eftir því hvernig endurhæfing gengur.  Kobe Bryant sagðist hafa sett met á sínum tíma þegar hann sagðist tilbúinn til leiks eftir 4 mánaða endurhæfingu eftir slík meiðsl.  Raunin varð hins vegar að hann var mun lengur frá leik.

 

Óhætt er að fullyrða að þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir þá Njarðvíkinga sem sóttu hart að Bonneau allt sumarið að koma honum aftur til landsins í græna búninginn.  Bonneau fór á kostum með liði Njarðvíkinga eftir að hann kom eftir áramót síðasta vetur.  Lið Njarðvíkinga stökkbreyttist og var svo á endanum hársbreidd frá því að slá sjálfa KR-inga út í oddaleik í DHL höllinni.   Línan sem Bonneau setti upp að meðaltali fyrir Njarðvík í fyrra var 34 stig, 7.5 fráköst og 5 stoðsendingar. 

 

"Tilhlökkunin var mikil hjá honum að spila í Njarðvík sem og hjá Njarðvíkingum yfir höfuð að fá að sjá hann spila, enda er hann leikmaður sem stimplaði sig rækilega inn í hjörtu allra Njarðvíkinga og körfuboltaáhugamanna á landsvísu  eftir frammistöðu sína á síðastliðnu tímabili." sagði Bjarki Már Viðarsson vara formaður KKD UMFN í samtali við Karfan.is

 

Stjórn og þjálfarar liggja nú undir feld hvað varðar framhaldið og væntanlega er leit af nýjum manni komin á fullt. 

 

"Hugur stjórnar er allur hjá Stefani á þessum erfiðu tímum, enda um gríðarlegt áfall að ræða. Tilhlökkunin var mikil hjá honum að spila í Njarðvík sem og hjá Njarðvíkingum yfir höfuð að fá að sjá hann spila, enda er hann leikmaður sem stimplaði sig rækilega inn í hjörtu allra Njarðvíkinga og körfuboltaáhugamanna á landsvísu eftir frammistöðu sína á síðastliðnu tímabili." sagði Bjarki ennfremur

 

Nokkru þekkt nöfn í boltanum sem slitið hafa hásin: Isiah Thomas (Pistons), Dominique Wilkins (Hawks) Elton Brand (Clippers)

Fréttir
- Auglýsing -