Lið Breiðabliks fékk Skallagrím í heimsókn í Lengjubikarnum í gærkvöld en þessi lið eru bæði í 1. deildinni í ár og er fyrirfram búist við að þau verði í toppbaráttunni þar, því ætti þessi leikur að gefa eitthvað til kynna um hvar liðin standa í byrjun tímabils.
Leikurinn var þó ekki áferðarfallegur til að byrja með, mikið af töpuðum boltum hjá báðum liðum og fátt um fína drætti. Til dæmis skoruðu liðsmenn Blika einungis 4 körfur utan af velli í 1. leikhluta, restin var úr vítum en staðan var 18-20 Skallagrím í vil að honum loknum.
Liðsmenn Skallagríms höfðu undirtökin í öðrum leikhluta og Atli Aðalsteinsson kom þeim 10 stigum yfir, 27-37, með þriggja stiga körfu þegar 2 og hálf mínúta voru til hálfleiks. En þá tóku Blikar við sér og Þórir Sigvaldason minnkaði muninn í 2 stig fyrir hálfleik, 35-37.
Breiðablik hóf svo seinni hálfleikinn af krafti og eftir að Halldór Halldórsson hafði skorað fyrstu körfuna setti fyrrum Skallagrímsmaðurinn Davíð Guðmundsson tvær þriggja stiga körfur í röð og Blikar komnir með 6 stiga forskot, 43-37. Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms tók þá leikhlé og hristi upp í leik sinna manna. Sigryggur Arnar Björnsson setti þriggja stiga körfu í kjölfarið sem virtist kveikja í liðinu. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 54-52 Breiðablik í vil.
Í fjórða leikhluta hélt Sigtryggur áfram að gera Blikum lífið leitt en hann skoraði 2 fyrstu körfurnar og eftir að Davíð Ásgeirsson bætti þriðju körfunni við greip Jónas Ólason þjálfari Blika til þess að taka leikhlé. Kjartan Ragnars skoraði þá 4 stig á stuttum tíma og Snjólfur Björnsson og Davíð settu sitt vítið hvor til að jafna leikinn í 60-60 þegar 2 og half mínúta voru til leiksloka. Sigtryggur stal þá boltanum og náði forystunni á nýjan leik fyrir Skallagrím en Rúnar Ingi skoraði úr vítaskoti og Halldór Halldórsson skoraði svo með snyrtilegu sniðskoti og kom Blikum yfir 63-62. Snjólfur bætti við 2 í viðbót af vítalínunni þegar 36 sekúndur voru eftir og í næstu sókn brást Sigtryggi bogalistin þegar hann reyndi þriggja stiga skot til að jafna leikinn. Halldór tók frákastið, kom boltanum á Snjólf en Davíð Ásgrímsson braut á honum og því átti Snjólfur 2 vítaskot til að koma Blikum í fjögurra eða fimm stiga forskot þegar 13 sekúndur liðu leiks. Hvorugt skotið vildi hins vegar niður og Sigtryggur fékk annað tækifæri til að jafna leikinn en þriggja stiga skot hans geigaði og Breiðablik átti innkast þegar 7 sekúndur voru eftir. Blikar taka leikhlé en dæmd var sóknarvilla á Davíð um leið og boltinn var tekinn inn og Skallar fengu því enn einn séns í viðbót til að jafna leikinn. Þeir komu boltanum á Sigtrygg sem náði upp erfiðu skoti sem geigaði og Blikar fögnuðu því sigri.
Leiksins verður ekki sérstaklega minnst fyrir fegurð en rétt er að taka fram að það vantaði 4 leikmenn í lið Breiðabliks, Snorri Vignisson er handarbrotinn og verður frá í að minnsta kosti 6 vikur, Breki Gylfason á við eymsl að stríða í hné og þá voru Brynjar Karl Ævarsson og Ragnar Jósef Ragnarsson veikir.
Hjá Breiðablik var Halldór Halldórsson með flottan leik, skoraði 12 stig og tók heil 16 fráköst, Kjartan stigahæstur með 18 stig, Davíð skoraði 10 og þá átti Þórir flotta innkomu í leiknum. Hjá Skallagrím var títtnefndur Sigtryggur Arnar með 21 stig, Davíð Ásgeirsson með 12 og Atli Aðalsteinsson með 10.
Umfjöllun/ Breidablik.is



