spot_img
HomeFréttirHaukar höfðu betur gegn Þór

Haukar höfðu betur gegn Þór

Það var heldur stutt gaman í höllinni í gærkvöldi þegar Þór og Haukar mættust í Lengjubikar karla í körfubolta. Leikurinn var ekki nema rúmlega einnar mínútna gamall þegar stöðva þurfti leikinn vegna vatnsleka. Mikil rigning var í gær og þakið á höllinni hélt ekki og fór svo að leikurinn var stöðvaður og fluttur í íþróttahús Síðuskóla.

Þór varð að sætta sig við átján stiga tap gegn hinu sterka liði Hauka þegar liðin mættust í Lengjubikar karla, lokatölur leiksins urðu 77-95 en staðan í hálfleik var 35-47. Gestirnir voru ávallt skrefinu á undan og höfðu tólf stiga forskot í hálfleik.  Skotnýting gestanna var með ágætum á sama tíma og ansi mörg opin skot voru ekki að detta með Þór.

Snemma í þriðja leikhluta komu Þórsarar muninum niður í sjö stig en þá spýttu gestirnir í og slitu sig ögn frá aftur og leiddu með þrettán stigum þegar fjórði leikhluti hófst en þá var staðan 56-69.

Haukar bættu svo ögn í aftur í fjórða leikhluta og unnu hann með fimm stigum 21-26 og lokatölur leiksins urðu 77-95.

Í liði Þórs var Andrew Lehman stigahæstur með 23 og 6 stoðsendingar Þröstur Leó Jóhannsson var með 15 stig og 8 fráköst þá voru þeir Tryggvi Snær Hlinason og Ragnar Helgi Friðriksson með 11 stig hvor auk þess tók Tryggvi 13 fráköst. Sindri Davíðsson var með 10 stig, Einar Ómar Eyjólfsson var með 3 stig og þeir Elías Kristjánsson og Arnór Jónsson með 2 stig hvor.

Hjá Haukum var Haukur Óskarsson með 22 stig og 11 fráköst, Kristinn Marinósson 20 stig, Kári Jónsson 16, Finnur Atli Magnússon 14, Jón Ólafur Magnússon 5 og  þeir Arnór Bjarki Ívarsson og Emil Barja 4 stig hvor.

Það var margt jákvætt í leik Þórs en Haukar voru einfaldlega betri. Þeirra leikur var mun jafnari en Þórs eins og sjá má á því að skotnýting liðanna í 2 stiga skotum var 46% hjá Þór en 63% hjá Haukum.  Skotnýting í þriggja stiga skotum var 7/24 eða 29%  hjá Þór en 10/29 eða 34% hjá Haukum.

Tölfræði leiksins

Mynd og umfjöllun/ Páll Jóhannesson

Fréttir
- Auglýsing -