Höttur mætti í Hafnarfjörð í gær og eygði smá von um að skella sér á topp C-riðils í Lengjubikarnum, sem og að „bumpa“ Stjörnunni niður fyrir sig og skilja þá eftir fyrir 8 liða úrslitin. Til þess að þurfti liðið sigur gegn Haukum og það með meira en tveimur stigum.
Hattarmenn skoruðu fyrstu stig leiksins en eftir það tóku Haukar völdin og leiddu allan leikhlutann. Haukar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta, náðu mest 12 stiga forskoti og ekkert benti til annars en að heimamenn myndu fljóta þæginlega í gegn um leikinn.
Um miðjan leikhlutann fór að síga á ógæfuhliðina hjá Haukum og það nýttu Hattarmenn sér. Áður en fyrri hálfleik lauk voru gestirnir að austan búnir að minnka muninn í tvö stig og þannig munaði í hálfleik.
Þriðji leikhluti var eign Hattar. Þeir voru mun betri allan leikhlutann og virtust skora að vild gegn slakri vörn Hauka. Haukarnir virtust ráðvilltir í varnaraðgerðum sínum og það nýttu Hattarmenn sér vel. Þeir leiddu með fimm stigum fyrir loka fjórðunginn sem varð hörku spennandi og í raun var þetta leikur fram á síðustu mínútur. Höttur leiddi fyrstu fjórar mínútur fjórðungsins en eftir það voru það Haukar sem sátu í bílstjórasætinu, skrefinu á undan og kláruðu á endanum leikinn með sigri, 98-92.
Sigur Hauka setur Hött í þriðja sætið í riðlinum, með jafn mörg stig og Stjarnan, en þar sem Garðbæingar unnu viðureignina milli þeirra halda þeir áfram.
Hjá Haukum var Kári Jónsson sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður 4 í 6 skotum. Hann endaði með 21 stig líkt og Stephen Madison sem bætti við 7 fráköstum. Hjá Hetti var það Tobin Carberry sem var atkvæðamestur með 24 stig og 9 stoðsendingar. Senunni stal hins vegar Hallmar Hallsson sem var ekki síður sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna en hann nýtti 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum og endaði með 16 stig.
Átta liða úrslitin fara fram á þriðjudaginn næsta þar sem þessi lið mætast:
Þór Þorl. – Tindastóll
FSu – Njarðvík
Haukar – KR
Grindavík – Stjarnan



