Sundsvall Dragons hefja leik í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Umea BSKT mæta í heimsókn. Fyrstu leikir sænsku deildarinnar fóru fram í gærkvöldi þar sem Jakob Örn Sigurðarson fyrrum leikmaður Sundsvall gerði 24 stig í öruggum sigri Boras gegn ecoÖrebro. Hlynur Bæringsson aldursforseti Sundsvall arkar út á parketið í kvöld með sínum mönnum en þónokkrar breytingar hafa orðið á liði Sundsvall frá síðasta tímabili.
Aðspurður um spár spekinganna sagði Hlynur: „Okkur er spáð 5.-6. sæti held ég, þetta verður öðruvísi ár.“
Sundsvall mætir Umea BSKT í kvöld. „Við erum töluvert sigurstranglegri en Umea en maður veit aldrei svona í byrjun móts enda höfum við misst töluvert af mönnum svo þetta gæti orðið „ströggl“ til að byrja með.
En hvernig er staðan á landsliðsfyrirliðanum eftir EuroBasket?
„Ég tók mér níu daga í frí sem var kannski aðeins of mikið en ég held að það gæti skilað sér síðar í mótinu. Þetta var mikil keyrsla í Berlína og erfitt bæði líkamlega og andlega. Ég er samt í fínu standi núna og bara nokkuð brattur.“
Mynd/ [email protected] – Hlynur í leik með íslenska liðinu gegn Tyrklandi á EuroBasket.



