Í dag fara fram úrslit Lengjubikarsins í karla- og kvennaflokki. Við ætlum að líta á hverjir hafa verið mestir og bestir í Lengjubikarnum fyrir þessa tvo úrslitaleiki. Haustbragur var á einhverjum ritaraborðum þar sem misfórst að skrá tölfræði og eiga þau félög reglum samkvæmt von á sekt svo listinn hér að neðan er því vitaskuld aðeins úr þeim leikjum sem voru „stattaðir“ ef við leyfum okkur að sletta.
Lengjubikar karla
Tobin Caberry leikmaður Hattar hefur skorað mest í einum leik í Lengjubikarnum en hann skellti niður 39 stigum gegn Stjörnunni í leik sem Stjarnan vann 90-84.
„Fjallið“ Baldur Þór Ragnarsson á flestar stoðsendingar í einum leik í keppninni en kappinn gaf 11 slíkar í svæsnum 128-56 sigri Þórs Þorlákshafnar gegn Ármanni.
Collin Anthony Pryor leikmaður Fjölnis á flest fráköst en í tvígang tók hann 20 fráköst í leik en það var gegn Fjölni og Þór Akureyri.
Jean Rony Cadet leikmaður Skallagríms á framlagshæsta leikinn í Lengjubikarnum til þessa en kappinn var með 48 framlagsstig í 101-106 tapi Skallanna gegn FSu.
Tveir leikmenn settu sex þrista í einum leik en það voru þeir Brynjar Þór Björnsson leikmaður KR gegn Val og Cristopher Caird leikmaður FSu gegn Keflavík.
Daníel Þór Midgley hefur stolið flestum boltum í einum leik eða 8 talsins í Lengjubikarnum í viðureign ÍR og KFÍ.
Flest varin skot í einum leik á 17 ára gamli miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason en í tveimur leikjum varði hann sex skot, gegn Hetti og Fjölni.
Tölfræði leikmanna í Lengjubikar karla

Lengjubikar kvenna
Guðbjörg Sverrisdóttir setti stigametið í keppninni til þessa með 29 stig í stórum 90-43 sigri Vals gegn Stjörnunni.
Auður Íris Ólafsdóttir trónir á toppi listans yfir flestar stoðsendingar í einum leik með 8 slíkar í 96-49 sigri Hauka gegn Grindavík.
Tveir leikmenn eru jafnir á toppnum í frákastabaráttunni með 18 stykki í einum leik en það eru þær Helga Rut Hallgrímsdóttir leikmaður Þórs og Helena Sverrisdóttir leikmaður Hauka.
Þrír leikmenn eru jafnir og eftir með hæsta framlagið í keppninni til þessa en þær Whitney Michelle Frazier, Grindavík, Helena Sverrisdóttir, Haukar og systir hennar Guðbjörg Sverrisdóttir, Valur, hafa allar náð að klukka inn 43 framlagsstig í einum leik.
Liðsfélagarnir Íris Sverrisdóttir og Petrúnella Skúladóttir úr Grindavík hafa báðar sett niður 5 þrista í einum leik, Íris gegn Þór Akureyri og Petrúnella gegn Snæfell.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Skallagríms er kvenna fingralengst í keppninni með 9 stolna bolta í viðureign Skallagríms og Keflavíkur.
Sjö leikmenn eru svo efstir og jafnir í flestum vörðum skotum á leik en allar vörðu þær 3 skot en þessir leikmenn eru Þóranna Kika Hodge-Carr (Keflavík), Margrét Kara Sturludóttir (Stjarnan), Helga Rut Hallgrímsdóttir (Þór Akureyri), Sara Diljá Sigurðardóttir (Snæfell), Salbjörg Ragna Sævarsdóttir (Hamar), Sigrún Sjöfn Ámundadóttir (Skallagrímur) og Emelía Ósk Gunnarsdóttir (Keflavík).
Tölfræði leikmanna í Lengjubikar kvenna
Myndir/ Bára Dröfn Kristinsdóttir



