Körfuknattleiksdeild Tindastóls losaði Darren Townes undan samningi á föstudaginn og að sögn Stefáns Jónssonar, formanns Körfuknattleiksdeildar Tindastóls, hafa hlutirnir gengið hratt fyrir sig um helgina. Félagið hefur komist að samkomulagi við Jerome Hill um að hann leiki með félaginu í Domino's deildinni.
„Bindur stjórn KKD miklar vonir við það að Jerome Hill sé sá leikmaður sem félagið hafi verið að leitast eftir,“ sagði Stefán í samtali við Feyki.
Jerome Hill er 198 sm hár framherji sem kemur úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum og lék hann þar með Gardner-Webb háskóla (big South conference). Hann var 4 stigahæsti leikmaður í deildinni með um 19 stig að meðaltali og frákastahæstur með 10.1 fráköst í leik.



