"Umbinn minn hafði samband og sagði að það væri lið sem vildi kaupa mig út úr samningnum hérna í Grikklandi. Og þetta er stórt skref uppá við klárlega." sagði Hörður Axel Vilhjálmsson gerði nokkuð sem líkast til aldrei hefur verið gert þegar hann opinberaði á SnapChat reikningi hjá Karfan.is nú rétt áðan að hann væri á leið til Tékklands að spila með meistaraliði til margra ára þarlendis,liði Nymburk. Liðið sem fyrr hefur verið áskrifandi af Tékknenska titlinum og unnið hann nú 12 ár í röð.
"Tékknenska deildin er kannski ekkert svo sterk og ég er ekki að horfa í það. Liðið spilar í tveimur Evrópudeildum þannig að þetta er stórt skref uppávið fyrir mig og það er það sem heillar mig við þetta. Þeir spila í einni deild með CSKA Moskva og Khymki spila í þannig að þetta er virkilega spennandi og ég tek þessu fagnandi."
Hlutirnir gerast því mjög hratt hjá Herði sem hefur svo sannarlega verið í góðum gír í Evrópuboltanum síðustu ár. "Þetta kom bara upp í gær, ég skrifaði undir samning og kem til að fara á mánudagsmorgun til Tékklands og spila fyrsta leikinn á miðvikudaginn í deildinni þar. Við hjónin erum virkilega spennt fyrir þessu þrátt fyrir að okkur líði nokkuð vel hérna í Grikklandi." sagði Hörður að lokum.
Hörður spilaði einmitt sinn síðasta leik í dag með liði Trikala þar sem þeir sigruðu Kavala 73:64 þar sem Hörður setti niður þrjú stig.



