spot_img
HomeFréttirLiðssigur Keflavíkur gegn Val

Liðssigur Keflavíkur gegn Val

Keflavík sigraði Valskonur í Dominosdeild kvenna nú rétt í þessu með 71 stigi gegn 66 stigum í TM-Höll þeirra Keflvíkinga. Leikurinn var skemmtilegur og köflóttur en í hálfleik leiddu heimastúlkur með 2 stigum, 39:37. 

 

Keflavík hóf leik af meiri krafti en Valsstúlkur áttu hinsvegar flottan sprett í lok fyrsta leikhluta og upphafi þess annars þegar þær komu sér í 9 stiga forskot, 20:29.  Þá skoraði Keflavík 8 stig í röð og það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var jafnt á með flestum tölum. Sem fyrr segir voru aðeins tvö stig sem skildu liðin eftir 20 mínútna leik.  Valskonur komu værukærar til leiks í seinni hálfleik og það nýtti Keflavík sér til fulls. Á meðan leikmenn Keflavíkur voru að fórna sér í alla bolta var lítið að gerast hjá þeim rauðklæddu og þriðji leikhluti endaði 25:12 heimastúlkum í vil og þar má segja að sigurinn hafi verið kominn hálfa leið.  

 

Valsstúlkur sýndu hinsvegar baráttu og voru hársbreidd frá því að gera loka mínútur leiksins spennandi en óheppni í skotum þeirra á lokakaflanum varð þeim að lokum að falli ofaní skynsamlegan leik Keflavíkur. 

 

Liðssigur segir allt sem segja þarf um þennan leik fyrir Keflavík. Margrét Sturlaugsdóttir dreifði mínútum vel á leikmenn liðsins og allar virtust skilja sitt hlutverk og gefa 100% orku í verkefnið. Á meðan voru eldri leikmenn liðsins að skila sínu og Melissa Zorning stjórnaði leik liðsins af mikilli festu. Skemmtilegur leikmaður Melissa sem er ekki einungis hörku leikmaður helduru er hún hógvær í leik sínum og öllu mikilvægara þá gerir hún aðra leikmenn liðsins betri. 

 

Valsstúlkur þrátt fyrir tap eiga nóg inni en það sem þær sýndu í kvöld.  Hlutaverkaskipan virtist ekki vera á hreinu hjá leikmönnum og á meðan fáir leikmenn börðust vel að undanskilinni Dagbjörtu Karlsdóttur sem virtist berjast hart fyrir sínu og kom sterk af bekknum, þá virtust aðrar ekki tilbúnar að leggja sig allar í verkefnið.  Guðbjörg Sverrisdóttir þar t.a.m að skila stærra hlutverki í slíkum leikjum eins og þessum til að Valskonur eigi að getað sigrað. Og það getur hún vissulega því hún hefur margoft sýnt það.  Þeim til happs þá er mótið rétt að hefjast og nóg eftir til að bæta sig. 

 

Tölfræði leiksins

 

Mynd: Katla Rún Garðarsdóttir ein af ungu stúlkunum í liði Keflavíkur skilaði fínu framlagi í kvöld

Fréttir
- Auglýsing -