spot_img
HomeFréttir57 stiga sigur Snæfells og metin falla

57 stiga sigur Snæfells og metin falla

Snæfellstúlkurnar tóku á móti neðsta liði deildarinnar Hamri í Dominosdeild kvenna í Stykkishólmi í kvöld og gestrisnin var ekki upp á marga fiska. Snæfell komust í 12-0 og eftir 4 mínútna leik settu Hamarsstúlkur sín fyrstu stig og þá tók við annar kafli Snæfells sem var ekki nema 13-0 í það sinn og staðan 25-2 eftir fyrsta leikhluta. Hamar hafði engu að síður skotið 14 skotum en það var oft tilviljunarkennt en þær töpuðu 10 boltum í fyrsta fjórðung.

 

Ekki hefur verið kannað í hvaða gír Suriya McGuire var en hún skoraði ekki stig úr þeim átta „NBA action“ skotum sínum framan af fyrri hálfleik þrátt fyrir snúninga og hreyfingar af dýrari gerðinni. Hún skoraði þó tveggja stiga mark undir lok fyrri hálfleiks. 48-17 var staðan í hálfleik. Rebekka Rán var komin með 10 stig fyrir Snæfell og Andrea Björt og Bryndís 7 stig hvor. Hjá Hamri var Salbjörg Sævarsdóttir með 6 stig.

 

Hamar átti fyrstu tvö stig seinni hálfleiks en ójafn leikur var þetta alveg hreint og þjófóttar Snæfellsstúlkur héldu áfram að þjarma illilega að gestum sínum. Haiden Palmer setti niður 8 stig í röð og Snæfell komst með því í 60-17 og einhvern vegin leitaði hugur manns að hinu vafasama „meti“, lægsta skor í leik þetta tímabilið. Hann áttu einmitt Hamarsstúlkur þar til Valsstúlkur hirtu þann heiður einmitt gegn Snæfelli í síðasta leik með 38 stig.

Hamar voru hins vegar ekki á því að láta það hanga í höndum Vals mikið lengur.

 

19 stig þurftu Hamar að skora í fjórða fjórðung til að sleppa við „metið“ þar sem staðan var 51 stig 71-20 eftir þriðja. Snæfell komst í 60 stiga mun 89-29. Leiknum lauk 89-32 og ekki fleiri orð um það. Haiden Palmer skoraði 17 stig og Rebekka Rán var með 15 stig fyrir Snæfell og í liði Hamars var Suriya McGuire með 8 stig og þær Salbjörg Sævarsdóttir og Jenný Harðardóttir með 6 stig hvor.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn Eyþór Benediktsson

Fréttir
- Auglýsing -