Hólmarar mættu í DHL-höllina í kvöld og öttu kappi við KR-inga. Snæfellingar hafa nælt sér í 4 stig til þessa með aðeins þremur stigum sem hlýtur að teljast nokkuð gott. Heimamenn eru hins vegar á ógnar skriði þrátt fyrir tap í fyrsta leik og með Pavel og Helga í meiðslum. Það má alltaf gera sér vonir um spennandi leiki í þessari fögru íþrótt en heimamenn líkast til öllu sigurstranglegri fyrirfram.
Heimamenn voru snöggir að taka frumkvæðið í leiknum. Varnarleikur Snæfells var ekki glæsilegur sem er ekki líklegt til árangurs gegn manni eins og Craion. Hann var kominn með 12 stig í stöðunni 22-13 og útlit fyrir hraða og fumlausa afgreiðslu heimamanna. Eftir ágætan sprett gestanna sóknarlega var munurinn þó aðeins 6 stig, 26-20, eftir fyrsta leikhluta.
KR-ingar hófu hins vegar annan leikhlutann á 13-0 spretti, staðan að honum loknum 39-20. Gestirnir brugðu á það ráð að smella sér í svæðisvörn sem gat varla annað en bætt leik liðsins! Það gerði það, en öllum var ljóst að endurkoma þeirra í leiknum var álíka sennileg og endurkoma frelsarans sjálfs í Vesturbæinn. Svæðisvörnin og dauft drápseðli KR-inga gerði það að verkum að munurinn hélst að mestu óbreyttur næstu mínútur og stóðu leikar 55-32 í hálfleik.
Gestirnir héldu í við heimamenn í byrjun síðari hálfleiks með svæðisvörninni og Sherrod átti líka ágæta spretti sóknarlega. Er á leið fóru KR-ingar hins vegar að finna stærri glufur á vörn Hólmara og ljóst að þarna var ekki fokið í flest heldur öll skjól gestanna. Margir lögðu í púkkið hjá þeim röndóttu og í lok leikhlutans var staðan 76-49 – úrslitin löngu ráðin og frelsarinn hvergi sjáanlegur.
Ekki var boðið upp á ruslamínútur svokallaðar heldur ruslafjórðung. Leikmenn voru óhræddir við að reyna ýmsar hundakúnstir sem reyndar gengu ekki mjög vel og engin troðsla leit dagsins ljós. Vilhjálmur Jensson vakti hins vegar athygli, nýtti sitt tækifæri einna best að öðrum ólöstuðum og fögur snarörvhent strokan fékk að njóta sín. Síðustu mínúturnar voru svo rusla-ruslamínútur og áhorfendur áttu jafnvel von á að sjá yngstu kvenkyns iðkendur KR detta inn á en þeir röðuðu niður djúpum tvistum áhorfendum til afþreyingar í hálfleik. Svo fór ekki, en lokatölur voru 103-64.
Óhætt er að fullyrða að munurinn á liðunum var mikill í kvöld. Sherrod og Siggi voru þeir einu sem skiluðu teljandi framlagi með 18 og 15 stig. Hjá KR var Craion frábær að vanda með 23 stig og 15 fráköst. Allir leikmenn liðsins spiluðu og næstum rúmlega það og fjölmargir lögðu talsvert af mörkum í stórum og glæsilegum sigri.
Texti: Kári Viðarsson
Mynd/JBÓ: Þórir Þorbjarnarson leggur í tvö stig gegn Snæfell



