spot_img
HomeFréttirÞórsarar kafsigldu Stjörnumenn í fjórða

Þórsarar kafsigldu Stjörnumenn í fjórða

 

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Þórsurum í Domino’s deild karla en fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið þrjá leiki af fimm. Hér var því um sannkallaðan stórslag að ræða, enda bæði lið hungruð í að halda í við topplið deildarinnar.

 

Afskaplega lítið var skorað fyrstu mínúturnar og einkenndist leikurinn af barningi og góðum varnarleik. Marvin Valdimarsson skoraði sjö fyrstu stig heimamanna og jafnaði í 7-7 en Þórsarar voru alltaf hálfu skrefi á undan út fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 17-22 gestunum í vil.

 

Annar leikhluti spilaðist nokkuð svipað og sá fyrsti, bæði lið tóku sín áhlaup og mikil barátta var hjá báðum liðum. Þórsarar höfðu fimm stiga forystu nokkrum sekúndum fyrir lok fyrri hálfleiks en rétt áður en flautan gall henti Marvin Valdimarsson upp ótrúlegri Maríubæn fyrir utan þriggja stiga línuna, spjaldið ofaní, og staðan því 40-42 í hálfleik.

 

Sama baráttan einkenndi leikinn í þriðja leikhluta sem var lítið fyrir augað, nema helst fyrir þá sem telja hörkuvarnarleik til augnakonfekts. Bæði lið voru föst fyrir og virtist boltinn ekki eiga mjög greiða leið ofan í körfuna. Fyrir lokafjórðunginn var staðan hnífjöfn 57-57, og allt útlit fyrir háspennu í lokaleikhlutanum.

 

Þórsarar virtust hins vegar ekki hafa hagsmuni spennufíkla sem gætu leynst í stúkunni í huga, þegar þeir stigu á gólfið í fjórða leikhluta. Gestirnir hreinlega völtuðu yfir lina og veiklulega heimamenn á fyrstu fimm mínútum lokafjórðungsins og voru fljótlega komnir 17 stigum yfir. Á þessum fimm mínútum virtust Þórsarar hreinlega ekki geta klikkað úr skoti, hvort sem skyttan hét Emil Karel, Davíð Arnar eða Vance Hall, allt virtist detta ofan í hjá grænklæddum. Stjörnumenn virtust algerlega heillum horfnir og einfaldlega ekki nægilega tilbúnir til að klára leikinn. Fór svo að Þórsarar höfðu að lokum tíu stiga sigur, 76-86, eftir frábæran fjórða leikhluta.

 

Stjarnan-Þór Þ. 76-86 (17-22, 23-20, 17-15, 19-29)

Stjarnan: Tómas Heiðar Tómasson 18, Al'lonzo Coleman 17/16 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/9 fráköst/4 varin skot, Justin Shouse 13/4 fráköst/8 stoðsendingar, Sæmundur Valdimarsson 5/6 fráköst, Daði Lár Jónsson 4, Ágúst Angantýsson 2/4 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 2/7 fráköst, 

Þór Þ.: Vance Michael Hall 27/5 fráköst/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 22/4 fráköst/6 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 16/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Ragnar Örn Bragason 5, Halldór Garðar Hermannsson 5/4 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 4/5 fráköst/4 varin skot,

Texti: Elías Karl

Myndasafn: Tomasz

Fréttir
- Auglýsing -