Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórsara var að vonum ánægður með frábæran fjórða leikhluta sinna manna þegar þeir unnu Stjörnuna 76-86 eftir að jafnt hafði verið í lok þriðja leikhluta. "Við fengum gott móment þarna í byrjun fjórða, við höfðum leyft Stjörnunni að koma okkur út úr okkar aðgerðum í þriðja og létum það fara í okkur, en við komum okkur aftur út úr því sem ég er mjög ánægður með og fyrst og fremst létum við boltann ganga vel, sem gaf okkur mikið af opnum skotum. Það var svo alveg sama hver tók skotin og var í raun svolítið lúxusvandamál hjá mér, því þegar við fórum á þetta rönn í fjórða leikhluta var ég með tvo byrjunarliðsmenn á bekknum og hreinlega kom þeim ekki inn". Þórsarar unnu í kvöld sinn fjórða sigur í deildinni og sitja í þriðja sæti Domino's deildarinnar.



