Á fimmtudag heldur íslenska kvennalandsliðið út til Ungverjalands til að spila sinn fyrsta leik í undankeppni EuroBasket 2017. Ísland er í riðli með Ungverjum, Slóvökum og Portúgölum en tvær fyrstu þjóðirnar eru afar sterkar körfuboltaþjóðir. Ísland og Ungverjaland leika sinn fyrsta leik í forkeppninni ytra næsta laugardag en við fengum Helenu Sverrisdóttur til þess að rýna lítið eitt í andstæðingana þar sem hún hefur m.a. leikið í Ungverjalandi, nánar tiltekið í Miskolc þar sem viðureign Ungverjalands og Íslands mun fara fram.
„Ég þekki auðvitað flestar af þessum stelpum, þær eru allar að spilar í Euroleague eða Eurocup, eru semsagt allar atvinnumenn. Eru mjög sterkar og með mjög góðar yngri stelpur. Eru lika með einn risa þarna, 208sm en hún er ung og efnileg lika. Þetta verður ansi erfitt verkefni fyrir okkur en vonandi lærðum við eitthvað af strákunum og þeirra spilamennsku á EuroBasket. Við þurfum að eiga frábæran leik varnarlega og vonandi náum við að stríða þessum stóru liðum,“ sagði Helena við Karfan.is en hvernig metur hún fjarveru nokkurra sterkra landsliðmanna sem eru í háskólanámi í Bandaríkjunum um þessar mundir?
„Já það er mjög dýrt, þrjár stelpur sem hafa verið að byrja inná og lika með hæð. Við erum alltof þunnur hópur til að höndla það en við verðum bara að lifa með þvi og gera okkar besta án þeirra,“ sagði Helena en vestanhafs og ekki liðtækar í leikinn gegn Ungverjum eru Hildur Björg Kjartansdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Sara Rún Hinriksdóttir. Þá er Lovísa Björt Henningsdóttir einnig við háskólanám og ekki mögulegt að setja hana í hópinn.
Hvað með leikmennina sem Helena þekkir til?
„Þær sem ég þekki best er Zsofia Fegyverneki, þeirra svona reyndasti og vinsælasti leikstjórnandi. Tijana Krivacevic er mjög hreyfanlegur og góður forward. Ég þekki síðan Timea, Bernadett Horvath og Deborah Dubei, þær eru allar „solid“ bakverðir.“
Mynd úr safni/ Bára Dröfn
Riðill Íslands í forkeppni EuroBasket 2017:



