spot_img
HomeFréttirSlagurinn um Vesturland

Slagurinn um Vesturland

Það var stemmning í loftinu þegar ÍA og Skallagrímur mættust í kvöld í sannkölluðum Vesturlandsslag. Rimmur þessara liða eru oftar en ekki skemmtilegar og við gleðjumst alltaf yfir því þegar liðin eru í sömu deild. Þessar rimmur hafa reyndar ekki verið alveg nógu margar síðustu árin þar sem liðin hafa ekki alltaf verið í sömu deild.

Ef við rennum aðeins yfir hvernig innbyrðis viðureignir þessara liða hafa verið síðan 2009 þá má segja að um nokkurskonar einokun á sigrum hafi verið að ræða. Liðin höfðu mæst 7 sinnum fyrir leik kvöldsins og höfðu Skallagrímsmenn farið með sigur af hólmi í 6 þeirra með að meðaltali rúmlega 11 stiga mun.  Staðan 622-542 Skallagrími í vil.

Síðast þegar þessi lið áttust við var það í úrslitakeppni 1. deildar, tímabilið 2011/2012.  Þá mættust liðin fyrst í Borgarnesi þar sem heimamenn unnu en Skagamenn jöfnuðu einvígið í næsta heimaleik.  Oddaleikurinn fór svo fram í Fjósinu í Borgarnesi þar sem Skallagrímur kláraði einvígið.

Það er ekki ofsögum sagt að þessi úrslitarimma er ein sú stærsta, ef ekki sú stærsta, í sögu úrslitakeppni 1. deildar, frábær mæting áhorfenda var á alla þrjá leikina, fjölmiðlar fjölluðu mikið um leiki liðanna, sjónvarpið sá sig knúið til að mæta og mynda og körfuboltinn á Vesturlandi stimmplaði sig inn af fullum krafti.

Nú, rúmum þremur árum seinna mættust liðin svo aftur í sömu deild. Fyrir leikinn var ÍA í 2.-4. sæti með 6 stig og Skallagrímur í 5.-7. sæti með 4 stig.  Það var því vitað að allt yrði lagt í sölurnar og þá er öllu til tjaldað – það er nefnilega alltaf veisla þegar þessi lið mætast, bæði inn á leikvellinum, á áhorfendapöllunum og í bæjarfélögunum. Ljósashow í kynningu heimaliðsins var á sínum stað, þriggjastiga skot langt í burtu sem ekki fóru endilega öll ofaní, troðslur af parketinu eða í huga leikmanna, snyrtileg sniðskot og allt þar fram eftir götunum.

Skagamenn byrjuðu leikinn með að skora fyrstu stig leiksins og það var svo sem viðbúið að þau kæmu af vítalínunni en Borgnesingar svöruðu með tveimur þristum.  ÍA klóraði í bakkann og kost í 9-8 en þristur frá hinum funheita Sigtryggi Arnari kom stöðunni í 9-11 og það má segja að þarna hefði verið við hæfi fyrir heimamenn að hringja í neyðarlínuna því til að gera langa sögu stutta leiddu gestirnir í Skallagrími til loka leiks.  Munurinn í hálfleik voru tíu stig, 44 stig heimamanna gegn 54 stigum gestanna.

Skallagrímur mættu svo sterkir inn í þriðja leikhluta og keyrðu á heimamenn sem virkuðu þreyttir og tóku þá tilfinningu inn í hausinn á sér og Skallarnir lögðu grunninn að sigri með 11-25 leikhluta og kláruðu leikinn að lokum með öruggum 77-100 sigri.  Tak Skallagríms á ÍA er því enn til staðar.

Það var athyglisvert að aðeins þrír leikmenn ÍA fóru á vítalínuna í leiknum og hittu vel, úr 13 af 16 vítaskotum.  Skallagrímsmenn voru aðeins meira á vítalínunni en 6 leikmenn þeirra tóku alls 32 vítaskot og hittu annars ágætlega eða úr 23.

Bestur í liði gestanna, og maður leiksins, var áður nefndur Sigtryggur Arnar Björnsson en kappinn setti 35 stig, þar af 5 þrista.  Jean Rony Cadet átti einnig mjög flottan leik, setti 24 stig og tók að auki 15 fráköst.  Hjá ÍA fór mest fyrir Sean Wesley Tate en hann setti 28 stig, þar af 4 þrista og á hæla honum kom Fannar Freyr Helgason með 22 stig auk 7 frákasta.
Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 4-5 sæti með 6 stig eftir 5 leiki.  

Tölfræði leiksins 

Umfjöllun/ HH
Mynd úr safni/ Sigtryggur Arnar var Skagamönnum erfiður í kvöld

Fréttir
- Auglýsing -