Liðin sem kepptust um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili mættust í kvöld í fyrsta skipti síðan KR vann baráttuna í apríl síðastliðnum. Tindastóll hafði því sjálfsagt hugsað sér að hefna þessara ófara en það var líklega til of mikils ætlast. Því KR hafði á endanum 80-76 sigur gegn gestunum.
Pavel Ermolinski var mættur á völlinn eftir meiðsli og skartaði þessu forljóta ennisbandi, eða svo segja fylgjendur okkar Twitter allavega. KR vann síðasta leik gegn Grindavík og Tindastóll var fyrsta liðið til að vinna Keflavík á tímabilinu fyrir viku síðan. Liðin komu því full af sjálfstrausti í þennan leik. Þegar þessi lið mættust í deild og bikar á síðustu leiktíð í DHL höllinni enduðu leikirnir í framlengingu og var þeirri hefð ekki breytt í kvöld.
Þrátt fyrir langt og erfitt ferðalag gestanna frá Sauðárkróki voru heimamenn ekki á því að sýna mikla gestrisni. KR var mun betra liðið í upphafi leiks og komst til að mynda strax í 9-1 forystu. Pétur Rúnar var sá sem hélt loftinu í Tindastól og voru þeir brúnfjólubláu ekki klárir að gefa þennan leik auðveldlega. Staðan eftir fyrsta leikhluta 20-15 fyrir KR.
Þriggja stiga nýting beggja liða var ansi langt frá því að vera viðunandi framan af leik. KR fékk sérstaklega mikið af opnum skotum en lítið vildi ofan í körfuna. Þeir nýmeiddu Pavel og Helgi Magg voru með einstaklega skakkt mið og nýting þeirra eftir því. Gestirnir mættu nokkuð hressari í annan leikhlutann og náðu muninum niður í tvö stig með góðu áhlaupi. KR var ákveðnið í að halda fjarlægðinni temmilegri og með þriggja stiga körfu frá Helga Magg varð munurinn sjö stig og hélst það allt til loka leikhlutans , 43-36. KR tapaði ellefu boltum í fyrri hálfleik en Tindastóll nýtti sér það ákaflega illa og skoruðu einungis fjögur stig af minnst 22 mögulegum. Ef þeir hefðu nýtt þetta betur hefði staðan geta verið önnur.

Tindastóll var staðráðinn í að láta KR ekki valta yfir sig og settu fyrstu fimm stig leikhlutans. Mike Craion þurfti að hafa mikið fyrir öllum hlutum þar sem Tindastólsmenn tóku hart á honum. Þetta fór nokkuð í taugarnar á KR og fór mikil orka í þras og pirring. Það virtist bara hreinlega vera alveg sama hvað Tindastólll reyndi í leikhlutanum, þeim var lífsins ómögulegt að jafna KR. Staðan fyrir lokaleikhlutann 61-53 heimamönnum í vil og Tindastóll þurfti að draga fram stóra bor föður síns ef sigur ætti að nást.
Hægt og rólega í fjórða leikhluta nálgaðist Tindastóll og varð munurinn minnstur tvö stig. Heimamenn virtust samt sem áður alltaf hafa svör og Helga Má Magnússon þegar allt var að detta í volæði. Pétur Rúnar Birgisson náði samt sem áður að jafna leikinn þegar ein og hálf mínúta var eftir þegar hann setti sniðskot og víti að auki. KR tapaði boltanum, Darrel Lewis setti auðvelda körfu og kom Tindstól yfir í fyrsta skipti í leiknum 70-72. Lokasókninn var eins æsileg og þær gerast. Þrír leikmenn KR fengu tækifæri á að jafna leiknn án þess að gestirnir gripu inní. Það var Mike Craion sem nýtti tækifærið þegar 0,6 sekúndur voru eftir, því var framlengt.
Byrjunin á framlengingunni bar þess nokkuð keim að Tindastóll átti ekki mikið eftir af tanknum. KR var með fimm fyrstu stigin og Snorri Hrafnkelsson kom með risa framlag af bekknum, tvö sóknarfráköst og varinn bolti á stuttum tíma. Íslandsmeistararnir voru sterkari á lokasprettinum og höfðu fjögurra stiga sigur 80-76.
Sigur KR því staðreynd þar sem liðsheildin var ofan á. Engin leikmaður var áberandi í stigaskorun og allir lögðu jafnt í púkk. Það voru þó líklega 21 sóknarfrákast KR sem gerði gæfumuninn. Tindastóll geta farið frá þessum leik með beint bak, það vantaði bara herslu muninn og ef þeir halda áfram að bæta leik sinn er líklegt að þeir verði geggjaðir eftir áramót.
Michael Craion var flottur í kvöld með 17 stig, 14 fráköst og var illviðráðanlegur. Einnig munaði mikið um framlag þeirra Brynjars og Helga Más á stórum augnablikum í leiknum.
Pétur Rúnar sýndi sitt rétta andlit í leiknum og var með 21 stig. Jerome Hill endaði með 13 stig og 7 fráköst sem er skítsæmilegt, þeir þurfa samt sem áður svo margfalt meira frá þessum leikmanni. Hann var settur í að gæta Craions og það var aldrei sanngjarn leikur. Tindastóll þarf meiri gæðaleikmann sem getur tekið leikinn yfir, ef þeir finna hann þá eru þeim allir vegir færir.
Umfjöllun/ Ólafur Þór Jónsson



