Boras Basket skellti Sundsvall Dragons áðan í sænsku úrvalsdeildinni. Boras náði þar með að kvitta fyrir tapið í Drekabælinu á dögunum. Lokatölur í leiknum voru 101-72 Boras í vil.
Jakob Örn Sigurðarson gerði 17 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í liði Boras. Hlynur Bæringsson gerði svo 9 stig, tók 15 fráköst og gaf 2 stoðsendingar í liði Sundsvall. Jakob og félagar gáfu því Sundsvall skammt af sínu eigin meðali því Boras lá gegn Hlyni og félögum 92-73 á heimavelli Sundsvall þann 27. nóvember síðastliðinn.
Um þessar mundir er Jakob Örn áttundi stigahæsti leikmaður deildarinnar með 15,92 stig að meðaltali í leik en Hlynur leiðir frákastakeppnina í deildinni með 11,62 fráköst að jafnaði í leik.



