Erlendur Ágúst Stefánsson og félagar í Black Hills State háskólanum eru komnir af stað í Rocky Mountain riðlinum (RMC) í bandaríska háskólaboltanum. Erlendur sem sagði skilið við FSu eftir sigur liðsins í úrslitakeppni 1. deildar lék í 10 mínútur í fyrsta leiknum í Rocky Mountain riðlinum sem Black Hills tapaði 78-73 gegn South Dakota Mines.
Erlendur gerði 3 stig í leiknum og gaf eina stoðsendingu en Erlendur hefur verið að koma inn af bekknum hjá Black Hills í einhverjar 11 mínútur að meðaltali.
Black Hills hefur leikið alls sex leiki til þessa, einn í Rocky Mountain, en liðið hefur tapað alls fjórum leikjum og unnið tvo en Black Hills leikur s.s. í 2. deild bandaríska háskólaboltans.
Black Hills lagði svo Trinity Bible skólann þann 4. desember síðastliðinn en það var leikur utan riðlakeppninnar. Erlendur skoraði ekki í leiknum en tók 2 fráköst. Félagi Erlends frá FSu, Fraser Malcolm, sem fór með honum til Black Hills gerði 11 stig í þeim leik en þeir sömdu á sama tíma við skólann.
Mynd/ Facebook-síða Black Hills – Erlendur er lengst til vinstri á myndinni en Fraser fjórði frá hægri.



