Seint koma sumir en koma þó. Hér að neðan fer umfjöllun frá framlengdum spennuslag Þórs á Akureyri gegn Hamri. Ritstjórn biðst velvirðingar á því að vera í seinagangi með þetta:
Þegar Þór og Hamar mætast á körfuboltavellinum verða þær viðureignir oftar en ekki jafnar og æsispennandi og úrslit ráðast ekki fyrr en í blálokin. Og á þessu varð engin undantekning þegar liðin mættust á föstudagskvöld því grípa þurfti til framlengingar til að knýja fram úrslitin. Þar reyndust strákarnir okkar sterkari og lönduðu fjögurra stiga sigri 95-91
þar sem Drew Lehman var stigahæstur Þórs með 32 stig.
Þór byrjaði leikinn betur og komst í 7-2 en þá kom góður sprettur hjá gestunum og þeir komust yfir 7-10. Þór svaraði með 8-0 kafla og breytti stöðunni í 15-10. Þór vann leikhlutann með einu stigi 22-21.
Gestirnir komu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og léku betur en Þór. Hittni okkar manna slök á meðan gestirnir voru á ágætu róli. Þórsliðið skoraði aðeins 11 stig gegn 18 gestanna sem leiddu með sex stigum í hálfleik 33-39. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en gestirnir ávallt skrefinu á undan. Þór vann leikhlutann 19-17 og þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst leiddu gestirnir með fjórum stigum 52-56.
Fjórði leikhlutinn var æsispennandi allt frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Strákarnir okkar vissu að nú var að duga eða drepast. Þór hafði ekki komist yfir í leiknum frá því um miðjan annars leikhluta þegar Hamar komst yfir 26-28 en þeir náðu forskoti 64-63 þegar fjórði leikhlutinn var tæplega hálfnaður.
Jafn var á með liðunum þar til að fjórar mínútur lifðu leiks komust gestirnir yfir 71-72. Næstu mínútur einkenndust af mikilli baráttu beggja liða og bæði lið ætluðu sér sigur. Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka hafði Þór þriggja stiga forskot 77-74. Örn kemur Hamri yfir 77-78 þegar 24. Sek voru til leiksloka og Samuel breytir stöðunni í 77-80 með tveim stigum af vítalínunni og 15 sekúndur til leikloka.
Þór tekur leikhlé og leggja á ráðinn. Þórsarar hefja leikinn og þegar 8. Sekúndur voru til leiksloka kom Sindri boltanum á Drew Lehman sem jafnaði leikinn með glæsilegum þristi 80-80.
Þórsarar byrjuðu framlenginguna vel og skoruðu fyrstu fjögur stigin í leiknum og ljóst að þeir ætluðu sér ekkert annað en sigur. Gestirnir neituðu þó að gefast upp og þegar tvær mínútur lifðu af framlengingu munaði aðeins einu stigi 88-87 og úrslitin hvergi ráðin. Mínútu síðar var staðan jöfn 89-89 og spennustigið í hæstu hæðum. En á síðustu mínútunni skoruðu Þórsarar 6-2 og tryggði sér mikilvægan sigur 95-91.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða þar sem áhorfendum var haldið á tánum allt frá upphafi til enda. Sigur Þórs var sigur liðsheildarinnar og þeir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum. ,,Löngunin og greddan til að klára þetta í svona jöfnum leik var mikil í kvöld og menn sýndu mikinn karakter í að klára í restina. Bitu á jaxlinn og náðu einhvern veginn að kreista þetta út í lokinn“ sagði Benedikt þjálfari í leikslok.
Stigahæstur Þórs í kvöld var Drew Lehman með 32 stig, Danero Thomas 25 stig og 10 fráköst, Ragnar Helgi 15 stig og 6 stoðsendingar, Þröstur Leó 13 stig og 8 fráköst, Sindri 5 stig og 4 stoðsendingar, Elías 3 og Tryggvi Snær 2.
Hjá Hamri var Samuel Prescott stigahæstur með 29 og 8 fráköst, Örn Sigurðarson var einnig góður og setti 26 stig og 8 fráköst, Þorsteinn Gunnlaugsson var með12 stig og 10 fráköst, Oddur Ólafsson 10 og Ármann Örn Vilbergsson 9

Í hálfleik var sex dugmiklum Þórsurum veittar viðurkenningar Körfuknattleikssambands Íslands fyrir áratugalangt óeigingjarnt starf í þágu íþróttarinnar. Gullmerki hlutu þeir Ágúst Herbert Guðmundsson og Þorgils Sævarsson. Silfurmerki hlutu þeir Björn Halldór Sveinsson, Jóhann Rúnar Sigurðsson, Konráð Herner Óskarsson og Ómar Birgisson
Aspar.
Það var Erlingur Hannesson stjórnarmaður í KKÍ sem afhenti þessum heiðursmönnum viðurkenningarnar. Það var dóttir Ágústs Guðmundssonar sem tók við merki föður síns og sonur Konráðs Óskarssonar fyrir hönd föður
síns en hvorugur átti þess kost að vera viðstaddir.
Myndirnar tók Þórir Ólafur Tryggvason.
Næsti leikur Þórs verður sunnudaginn 13. Desember í íþróttahöllinni gegn Reyni S. Leikur liðanna hefst klukkan 16:00.



