Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.
Nafn: Hlynur Bæringsson
Aldur: 33
Fjöldi landsleikja: 90+ held ég
Félagslið: Sundsvall Dragons
Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni?
Margt var alveg eins, en maður fann að alvaran og einbeitningin var meiri frá byrjun. Einnig spiluðum við sterkari lið i æfingaleikjunum en oft áður.
Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð?
Álagið var mjög mikið, bæði andlega og líkamlega. Maður fann það kannski best eftir mót þegar hægðist á öllu
Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?
Já eg fann fyrir mun meiri áhuga, sem jók á allar tilfinningar tengdar mótinu. Pressan, áhyggjurnar, adrenalínið, gleðin og allur tilfinningaskalinn varð sterkari fyrir vikið.
Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?
Ég fann ekki fyrir neinni pressu eftir að mótið byrjaði og við sýndum að við gátum spilað, þá var þetta bara gaman. Helst fann ég fyrir stressi fyrir og í byrjun Þjóðverja leiksins. Mesta pressan sem ég fann var fyrir mót, maður stefndi að sjálfsögðu hátt en það læddust líka að manni áhyggjur um að ef allt færi a versta veg yrði þetta ekki eins skemmtileg minning.
En að umgangast stórstjörnunar, hvernig var það?
Það var mjög skrýtið fyrst, mér brá í morgunmatnum þegar Nowitzki mætti á svæðið, ég er mikill aðdáandi hans bæði hvernig hann spilar og líka hvernig hann kemur fyrir. Það er samt eins með þetta og margt annað að maður venst þessu. En vissulega var þetta hálf súrrealískt fyrir mann eins og mig sem hef ekki varið ferlinum í þessum félagsskap.
Fannst þér meira stress fylgja undankepninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?
Nei ekki svo mikið, við byrjuðum fyrst að hugsa um það fyrir Bretaleikinn í London og þar fannst mer bara momentið vera með okkur og var mjög bjartsýnn fyrir þann leik.
Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?
Það eru mikið af tilfinningum, á vissan hátt verð ég dapur að þetta gæti verið síðasta skiptið sem ég upplifi eitthvað þessu líkt en þá reyni eg að minna sjálfan mig á þá góðu speki að vera glaður yfir því að þetta gerðist en ekki dapur því það er búið. Svo er ég líka ótrúlega glaður og þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu. Þetta átti sér nefnilega svo langan aðdraganda, óteljandi samverustundir, oft með sömu mönnunum, þetta var oft svo mikið hark. Það var svo mikið af fólki sem gerði þetta mögulegt, fólk sem kannski fær ekki hrósið og athyglina. Ég verð því fólki alltaf þakklátur.
Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?
Nei í raun ekki en reynslan mun hjálpa mér er ég viss um.
Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?
Það var bara erfitt, mikið spennufall. Ég veiktist eftir mót og það tók mig tíma að komast aftur í gang. Finna aftur löngunina og hvatninguna. Það er held ég bara eðlilegt og horfir allt til betri vegar núna.
Hvað tekur við núna?
Bara sama harkið með sínum kostum og göllum. Lífið gengur sinn vanagang.
Stefnir þú á EuroBasket 2017?
Ég bara veit það ekki, þetta átti að vera mitt síðasta mót en ég er enn að pæla í þessu.



