Israel Martin og lærisveinar hans í danska stórliðinu Bakken Bears urðu danskir bikarmeistarar um helgina eftir öruggan 83-66 sigur gegn Horsens IC. Horsens er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar en máttu sjá á eftir bikargullinu í greipar Spánverjans öfluga og hans manna í Bakken Bears.
Shawn Glover var stigahæstur hjá Bakken með 24 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Þetta er fyrsti stórtitill Martin með Bakken Bears en hann hefur látið duglega að sér kveða í Danmörku og víðar síðan hann sagði skilið við Tindastól að lokinni síðustu leiktíð á Íslandi.
Martin gerði Tindastól að silfurliði síðustu leiktíðar og er sem sakir stendur með Bakken Bears í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið hefur unnið 11 leiki og tapað þremur. Þá komst Bakken í milliriðla í FIBA Europe Cup eftir öruggan sigur í sínum riðli í fyrstu umferð keppninnar. Í dag er liðið hinsvegar á hraðri leið úr keppninni enda tapað fyrstu þremur leikjum sínum í milliriðlinum þar sem Bakken leika með BC Khimik, Belfius Mons-Hainaut og Juventus Utena.
Mynd af Facebook-síðu Israel Martin/ Þjálfarinn fékk að sjálfsögðu tolleringu eftir bikarsigurinn um helgina.



