spot_img
HomeFréttirSeiglusigur Þórs í Síkinu

Seiglusigur Þórs í Síkinu

Heimamenn í Tindastól vissu að þeirra beið erfitt verkefni í kvöld þegar þeir tóku á móti Þór frá Þorlákshöfn í Síkinu. Þórsarar töpuðu fyrri KR í síðustu umferð en hafa verið að leika vel í deildinni í vetur og unnu sannfærandi sigur á Tindastól í fyrri umferðinni.

 

Eftir sterka byrjun gestanna tóku heimamenn yfir og leiddu eftir fyrsta fjórðung 21-16.  Annar fjórðungurinn var mikill barningur fram og til baka en frekar lítið skorað.  Helgi Rafn fór fyrir heimamönnum og gamla brýnið Darrel Flake átti sterka innkomu.  Tindastóll var að hafa betur í frákastabaráttunni eins og reyndar allan leikinn en hittnin var ekki upp á marga fiska þannig að munurinn á liðunum varð aldrei mikill.  Hjá gestunum var Hall allt í öllu og algerlega honum að þakka að þeir voru inni í leiknum í hálfleik.  Staðan 38-32 í hálfleik og varnir beggja liða sterkar.

 

Í þriðja fjórðung snerist taflið heldur betur við og Þórsarar fóru að setja niður þrista eins og enginn væri morgundagurinn. Fjórir slíkir og troðsla frá Nat-vélinni breyttu stöðunni úr 40-34 fyrir heimamenn í 40-48 fyrir gestina og heimamenn á pöllunum vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið.  Eftir leikhlé náðu Tindastólsmenn þó áttum aftur og skoruðu næstu 11 stigin og tóku forystu.  Gestirnir enduðu þó leikhlutann sterkar og staðan var 54-55 fyrir síðasta fjórðung eftir risaþrist frá Helga Margeirs.

 

Í lokafjórðungnum skiptust liðin á að hafa forystuna og baráttan í algleymingi.  Pétur Rúnar hafði meiðst undir lok þriðja fjórðungs og munaði um minna hjá Tindastól.  Jerome Hill kom sterkur inn þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og tvær körfur frá honum yfir Ragga Nat og svo víti frá Lewis komu heimamönnum í 75-72 forystu þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.  Hall svaraði með þremur vítum eftir að brotið hafði verið á honum í þriggja stiga skoti, Hill klikkaði í næstu sókn og Emil smellti þrist í andlitið á heimamönnum 75-78 þegar ein og hálf mínúta var eftir.  leikurinn fór svo fram á vítalínunni en Tindastóll var með boltann þegar um 20 sekúndur voru eftir og staðan 78-79 fyrir gestina.  Kerfið var látið rúlla en skref voru dæmd á Pétur Rúnar þegar hann ætlaði að stinga sér í gegn og það reyndist rothögg.  Grétar setti síðasta stigið þegar 1.7 sek voru eftir og lokaskot Helga Freys undir pressu geigaði.

Tölfræði leiksins

Texti/Myndir: Hjalti

 

Tindastóll-Þór Þ. 78-80 (21-16, 17-16, 16-23, 24-25)

Tindastóll: Jerome Hill 19/11 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 18/6 fráköst, Darrell Flake 14/8 fráköst, Darrel Keith Lewis 9/8 fráköst/8 stoðsendingar, Ingvi Rafn Ingvarsson 5, Viðar Ágústsson 5/6 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 3, Svavar Atli Birgisson 3, Pétur Rúnar Birgisson 2/6 stoðsendingar, Finnbogi Bjarnason 0, Hannes Ingi Másson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0.

Þór Þ.: Vance Michael Hall 34/5 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 18/5 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 9/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 7, Grétar Ingi Erlendsson 7, Ragnar Örn Bragason 3, Baldur Þór Ragnarsson 2, Magnús Breki Þórðason 0, Davíð Arnar Ágústsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson, Ísak Ernir Kristinsson 

Fréttir
- Auglýsing -