spot_img
HomeFréttirEinstefna í grannaglímunni

Einstefna í grannaglímunni

Í kvöld fór fram nágrannaslagur í Þorlákshöfn en þar tóku heimamenn í Þór á móti FSu í 15. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta. FSu lék án lykilmannanna Chris Caird og Ara Gylfasonar í leiknum. Vance Hall skartaði andlitsgrímu í leiknum en hann nefbrotnaði í undanúrslitaleik bikarsins gegn Keflavík á mánudaginn. 

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og komust í 17-8 en þeir skoruðu ekki seinustu 4 mínúturnar í leikhlutanum og FSu náði að minnka muninn í 17-14 í lok 1. leikhluta. 

Þórsarar náðu að slíta sig örlítið frá FSu mönnum um miðbik 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 43-32 heimamönnum í vil. 
Atkvæðamestir í fyrri hálfleik hjá Þór voru þeir Vance Hall með 18 stig, Ragnar Nathanaelsson með 10 stig og 11 fráköst og hjá FSu var Christopher Woods kominn með 16 stig og 9 fráköst. 

3. leikhluti var algjörlega eign Þórsara en þeir unnu hann 27-10 og staðan því 70-42 fyrir lokaleikhlutann. Eins og tölurnar gefa til kynna voru FSu menn í miklu basli í sóknarleiknum og Þórsarar voru að fá mikið af auðveldum skotum. 

Sama var uppi á teningnum í lokaleikhlutanum, en skemmst er frá því að segja að Þórsarar sigruðu leikinn 94-58 og sigurinn aldrei í hættu. Eins og áður kom fram var FSu í miklu basli í sókninni en þeir fóru mikið með boltann inn á blokkina til Christopher Woods og voru aðrir ekki að beita sér mikið í sókninni, söknuðu þeir mikið þeirra Chris Caird og Ara Gylfasonar sem hefðu eflaust hleypt meira lífi í leik þeirra. 

Þórsarar voru að flæða boltanum vel í sókninni og skapa sér mörg góð skot en voru ekkert að hitta sérstaklega vel fyrir utan 3ja stiga línuna, en það verður ekki tekið af þeim að þeir áttu flottan leik í kvöld. Vance Hall heldur áfram að spila vel en hann var besti maður vallarins í kvöld með 33 stig og 9 fráköst.

Með sigrinum komu Þórsarar sér upp í 4. sæti deildarinnar en FSu er ennþá í fallsæti. 

Tölfræði leiksins

Umfjöllun og mynd: VAB
 

Fréttir
- Auglýsing -