Árið 2012 og 2013 voru Grindvíkingar Íslandsmeistarar og í dag hefur liðið í samfleytt 23 ár tekið þátt í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla. Eru að verða breyting þar á? Grindavík tapaði mikilvægum slag gegn Snæfell í gærkvöldi þar sem þurfti að tvíframlengja spennuslaginn. Grindvíkingar vissulega án sterkra leikmanna en þá Þorleif Ólafsson og Pál Axel Vilbergsson vantaði í hópinn. Eitthvað hefur verið á sveimi með stöðuna á Páli og margir jafnvel spurt sig að því hvort skórnir séu á leið upp á hillu en tíðindamenn okkar úr Mustad-höllinni segja að hann sé einungis að glíma við meiðsli.
Eftir tapið í Hólminum í gær er Grindavík í 9. sæti deildarinnar með 12 stig en Haukar, Snæfell og Tindastóll með 14 stig í 6.-8. sæti deildarinnar. Þetta þýðir að ef blásið yrði til úrslitakeppninnar í dag myndi Grindavík missa af lestinni. Við það myndi 23 ára samfelldri sögu Grindavíkur í úrslitakeppni úrvalsdeildar ljúka.
Eftir einhver bestu ár klúbbsins (2012 og 2013) virðast hlutirnir gerast hratt og sæti í úrslitakeppninni nú orðið spurningamerki. Vissulega var það þungur hnífur að sjá á eftir Ólafi Ólafssyni í atvinnumennsku síðastliðið sumar en í hópi Grindvíkinga eru engu að síður sterkir leikmenn sem margir hverjir hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit á leiktíðinni.
Gulir settu heimamann á þjálfarastól en þetta var í fyrsta sinn sem Jóhann Þór Ólafsson sest við stýrið á úrvalsdeildarklúbbi og í það þarf reynslu eins og hvert annað og því viðbúið að hann reyni margt á sinni vegferð sem nýr aðalþjálfari. Meiðsli hafa þvælst fyrir gulum, framhjá því verður ekki horft en að fara frá tveimur Íslandsmeistaratitlum 2012 og 2013 í það að komast jafnvel ekki í úrslitakeppnina 2016 er ansi hröð niðursveifla.
Hér er ekki markmiðið að níða skóinn af leikmönnum eða öðrum sem koma nærri þessu ágæta félagi heldur kannski undirstrika að þarna eru sterkir póstar sem þurfa að vakna og lykta af kaffinu eða missa af lest sem hefur verið í gangi í 23 ár. Það er virkilega gaman að koma í gömlu Röstina, í dag Mustad-höllina, með hækkandi sól og upplifa úrslitakeppnina, „þeir skora“ í græjunum og fjör á pöllunum. Maður varla trúir því að Grindvíkingar ætli sér ekki í þann pakka tuttugasta og fjórða árið í röð.
Deildin er svakalega spennandi úti um alla töflu þetta tímabilið, helst kannski er brekkan hvað bröttust fyrir nýliða Hött og FSu en það er eftir slatta af stigum að slæðast fyrir Grindvíkinga og fróðlegt að fylgjast með gangi liðsins í framhaldinu.
Saga Grindavíkur í úrslitakeppninni
2015: Duttu út 3-0 gegn KR í 8-liða úrslitum
2014: Lentu í 2. sæti eftir 3-1 ósigur gegn KR í úrslitum
2013: Íslandsmeistarar
2012: Íslandsmeistarar
2011: Duttu út 1-2 gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum
2010: Duttu út 0-2 gegn Snæfell í 8-liða úrslitum
2009: Lentu í 2. sæti eftir 3-2 seríu gegn KR (jafnan talin ein allra besta sería íslenska boltans)
2008: Duttu út 3-1 gegn Snæfell í undanúrslitum
2007: Duttu út 3-2 gegn Njarðvík í undan´ruslitum
2006: Duttu út 2-0 gegn Skallagrím í 8-liða úrslitum
2005: Duttu út 2-1 gegn Keflavík í 8-liða úrslitum
2004: Duttu út 3-2 gegn Keflavík í undanúrslitum
2003: Lentu í 2. sæti eftir 3-0 ósigur gegn Keflavík í úrslitum
2002: Duttu út 3-1 gegn Keflavík í undanúrslitum
2001: Duttu út 2-1 gegn Tindastól í 8-liða úrslitum
2000: Lentu í 2. sæti eftir 3-1 ósigur gegn KR í úrslitum.
1999: Duttu út 3-1 gegn Keflavík í undanúrslitum
1998: Duttu út 2-1 gegn ÍA í 8-liða úrslitum
1997: Lentu í 2. sæti eftir 3-0 ósigur gegn Keflavík í úrslitum
1996: Íslandsmeistarar (fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins)
1995: Lentu í 2. sæti eftir 4-2 ósigur gegn Njarðvík
1994: Lentu í 2. sæti eftir 3-2 ósigur gegn Njarðvík
1993: Duttu út í undanúrslitum 2-0 gegn Haukum
1992: Komust ekki í úrslitakeppnina



