Haukar og Valur mætast í Domino´s-deild kvenna í kvöld en viðureignina mætti auðveldlega kalla slag hinna gjafmildu systra því þær Helena Sverrisdóttir, spilandi þjálfari Hauka og Guðbjörg Sverrisdóttir, leikmaður Vals, leiða úrvalsdeildina í stoðsendingum.
Helena trónir á toppi stoðsendingalistans með 7,31 stoðsendingu að meðaltali í leik og í 2. sæti er Guðbjörg með 5,31 stoðsendingu að meðaltali í leik.
Fleiri tölfræðitröll munu reima á sig skóna í Schenkerhöllinni í kvöld því Chelsie Schweers leiðir deildina í stigaskori með 29,23 stig í leik, Karisma Champman leikmaður Vals leiðir deildina í fráköstum með 16,31 frákast og þær Helena og Karisma berjast hart um toppsætið í framlagsjöfnunni þar sem Helena leiðir með litlum mun með 36,31 framlagsstig að jafnaði í leik en Chapman með 36,06 stig.
En tröllatölur leikmanna þessara liða eru ekki eina fréttaefnið fyrir leik kvöldsins því Valskonur eru á skriði og hafa unnið fjóra deildarleiki í röð. Haukar hafa unnið síðustu tvo deildarleiki sína og þar af átta heimaleiki í röð. Tíu stig skilja liðin að í deildinni en fróðlegt verður að sjá hvort gott gengi Valskvenna haldi áfram í kvöld eða hvort sterkur heimavöllur Hauka verði þeim ofviða.
Fyrsta viðureign liðanna á tímabilinu var þann 4. nóvember þegar Haukar sluppu með 73-79 sigur frá Hlíðarenda. Þann 19. desember unnu Haukar öðru sinni þegar liðin mættust í Schenkerhöllinni og þá voru lokatölurnar 93-77.
Tölfræðitröll Hauka og Vals:
Stigahæstu leikmenn
1. Chelsie Alexa Schweers, Haukar – 29,23
3. Karisma Chapman, Valur – 25,56
5. Helena Sverrisdóttir, Haukar – 22,50
Stoðsendingahæstu leikmenn
1. Helena Sverrisdóttir, Haukar – 7,31
2. Guðbjörg Sverrisdóttir, Valur – 5,31
5. Chelsie Alexa Schweers, Haukar – 4,15
6. Karisma Chapman, Valur – 4,00
Frákastahæstu leikmenn
1. Karisma Chapman, Valur – 16,31
2. Helena Sverrisdóttir, Haukar – 12,94
Framlagshæstu leikmenn
1. Helena Sverrisdóttir, Haukar – 36,31
2. Karisma Chapman, Valur – 36,06
5. Chelsie Alexa Schweers, Haukar – 27,00
8. Guðbjörg Sverrisdóttir, Valur – 15,63

Myndir/ Tomasz Kolodziejski og Axel Finnur



