Í gærkvöldi luku Jakob Örn Sigurðarson og Boras Basket þátttöku sinni í FIBA EuropeCup. Boras komst áfram í milliriðla en féllu þar úr leik. Nú taka við 16 liða úrslit í keppninni og sagði Jakob í samtali við Karfan.is að hann telji að þátttaka liðsins í EuropeCup muni hjálpa Boras þegar kemur að úrslitakeppninni í Svíþjóð.
„Það er búið að vera hrikalega skemmtilegt að taka þátt í Evrópukeppninni. Leikjaálagið hefur verið mikið og við höfum verið ansi þreyttir oft í vetur en alveg þess virði. Ég tel að þessir leikir á móti góðum liðum á erfiðum útivöllum eigi eftir að hjálpa okkur í úrslitakeppninni. Árangurinn var betri en margir bjuggust við en núna í seinni riðlinum voru Oostende og Turk Telekom einfaldlega betri en við. Það verður mjög gott fyrir okkur núna að fá mánuð til að einbeita okkur að sænsku deildinni áður en úrslitakeppnin hefst,“ sagði Jakob en Boras er í 5. sæti sænsku deildarinnar um þessar mundir.
Ef blásið yrði til úrslitakeppninnar núna þá myndu þeir félagar Jakob Örn og Hlynur Bæringsson mætast í fyrstu umferð þar sem Sundsvall yrði með heimavöllinn en það eru ekki öll kurl komin enn til grafar svo við verðum að bíða og sjá hvað setur.
Mynd/ Jakob Örn með íslenska landsliðinu.



