spot_img
HomeFréttirTalnasúpa í TM-Höllinni

Talnasúpa í TM-Höllinni

Stigunum rigndi í viðureign Keflavíkur og Snæfells í kvöld þar sem heimamenn í Keflavík höfðu 131-112 sigur á Hólmurum. Þetta var fimmti leikur tímabilsins þar sem lið sem mætast gera bæði 100 stig eða meira í leik og í fjórum af þessum fimm leikjum hefur Keflavík verið annað liðið. Hér að neðan reifum við nokkrar af tölum kvöldsins í leiknum þar sem 243 stig litu dagsins ljós.

Keflvíkingar jöfnuðu svo deildarmetið á tímabilinu í þristum í kvöld en Keflvíkingar settu niður 17 slíka, Grindvíkingar settu þetta met þann 22. október með 94-79 sigri á ÍR í Seljaskóla. 

 

Þá var leikurinn í kvöld sá næststoðsendingahæsti á tímabilinu þar sem Keflvíkingar gáfu 34 stoðsendingar í leiknum en metið eiga KR-ingar með 37 stykki en það var einmitt gegn Snæfell þann 12. nóvember síðastliðinn. 

 

Þá klukkaði Keflavík inn framlagshæsta leik tímabilsins þar sem liðið var með 165 framlagsstig og flest þeirra átti Valur Orri Valsson en hann fékk 41 framlagsstig með 27 stigum, 14 stoðsendingum, 4 fráköstum og 2 stolnum boltum. Með þessum 14 stoðsendingum jafnaði Valur Orri deildarmetið en það setti Ægir Þór Steinarsson þegar hann gaf 14 stoðsendingar í sigri KR gegn Njarðvík á dögunum. Þá er 41 í framlag það næsthæsta hjá íslenskum leikmanni í deildinni þetta tímabilið en Haukur Helgi Pálsson á hæsta framlag deildarinnar til þessa með 45 stig í sigri Njarðvíkinga gegn FSu. 

 

Þá verður ekki annað en litið á framlag Jerome Hill sem látinn var fara frá Tindastól á dögunum en hann skoraði 22 stig í kvöld, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Keflavík og hlaut 33 framlagsstig fyrir vikið. Leikurinn í kvöld var næstframlagshæsti leikur Hill á Íslandi. 

 

Bæði lið yfir 100 stig í Domino´s-deild karla þetta tímabilið

 

Snæfell 110-105 Grindavík 

Keflavík 109-104 Haukar 

Þór Þorlákshöfn 101-104 Keflavík

Keflavík 100-110 FSu

Keflavík 131-112 Snæfell

 

(Keflavík er annað liðið í fjórum af fimm leikjum tímabilsins til þessa þar sem bæði lið hafa gert 100 stig eða meira í leiknum) 

Mynd/ Skúli Sigurðsson – frá viðureign Keflavíkur og Snæfells í kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -