spot_img
HomeFréttir24-8 fyrir Keflavík: Tvö rándýr stig í TM-Höllinni í kvöld

24-8 fyrir Keflavík: Tvö rándýr stig í TM-Höllinni í kvöld

Tvö rándýr stig eru í boði í TM-Höllinni í kvöld þegar Keflavík og Grindavík eigast við í Domino´s-deild karla. Keflvíkingar geta endurheimt toppsæti deildarinnar með sigri en KR komst eitt liða á toppinn í gær með sigri á Snæfell. Keflavík á leik kvöldsins til góða á KR en þurfa að fara í gegnum granna sína úr Grindavík til að endurheimta toppsætið en Grindvíkingar virðast hafa verið að safna vopnum sínum undanfarið.

Viðureign liðanna verður sú þrítugasta og þriðja í röðinni, þ.e. þetta verður í 33. sinn sem Keflavík og Grindavík mætast í deildarleik á heimavelli Keflavíkur (úrslitakeppnin ekki meðtalin).

 

Staðan í deildarleikjum Keflavíkur og Grindavíkur sem fram fara á heimavelli Keflvíkinga er 24-8 Keflavík í vil! Þá eru 12 stig sem skilja liðin að í deildinni en menn verða að stíga varlega til jarðar því Grindavík lagði Stjörnuna á dögunum sem er í 3. sæti deildarinnar um þessar mundir svo þeir víla það ekki fyrir sér að sækja stig vel upp fyrir sig. Þeir eru þó aðeins átta sigrarnir hjá Grindavík í deild á heimavelli Keflavíkur frá upphafi svo tölfræðin er amk ekki að hjálpa þeim á leið inn í leik kvöldsins. 

 

Grindavík hefur mest skorað 106 stig í deildarkeppninni á heimavelli Keflavíkur en það var árið 1993 þegar Grindavík vann 103-106 útisigur. Keflavík hefur mest skorað 109 stig í deild á heimavelli gegn Grindavík en það var í 109-84 sigri árið 2006. 

 

Ljóst er að menn munu selja sig dýrt í kvöld því eins og gefur að skilja er Keflavík í baráttu um deildarmeistaratitilinn og Grindvíkingar að sama skapi í blóðugri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Eins og sakir standa er það ekki ómögulegt veðmál að þau geti mæst í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 

Mynd/ Skúli Sigurðsson – Sigurður Ingimundarson á þátt í þeim nokkrum sigrunum gegn Grindavík á heimavelli sínum í Keflavík. Bætist sá 25. deildarsigurinn við hjá klúbbnum í kvöld eða finna Grindvíkingar sinn níunda deildarsigur á Keflvíkingum á útivelli?

Fréttir
- Auglýsing -