Lærisveinar Israel Martin í Bakken Bears settu í gærkvöldi met í dönsku deildinni þegar þeir unnu Randers Cimbria 122-44. 78 stiga sigur og sá stærsti í 14 ára sögu Basketligaen og stærsti sigur Bakken bears í efstu deild frá upphafi en þeir hófu að leika í efstu deild 1958.
Fyrir leikinn voru menn að velta fyrir sér hvort Randers sem er í 6. sæti dönsku deildarinnar með 16 stig gæti strítt Bakken sem var með 26 stig fyrir leikinn og í 2. sæti deildarinnar og liðin eldað grátt silfur saman undanfarin ár. Það sást þó fljótt að Bakken átti ekki í erfiðleikum með Randers en þó leit ekki út fyrir að um neinn metsigur yrði að ræða. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Bakken 27-15 og í hálfleik var staðan 56-29 og fólk velti fyrir sér hvað yrði rætt í hálfleik og hvort Randers kæmi af krafti inn í þriðja leikhluta. Það gerðist ekki og um miðjan þriðja leikhluta settust erlendu leikmenn Randers á bekkinn pirraðir og lítillega meiddir og þar með var allur kraftur úr Randers og eftir þriðja leikhluta var staðan 88-41. Randers skoraði svo 3 stig í þeim fjórða gegn 34 stigum Bakken.
Sex leikmenn Bakken skoruðu 10 stig eða meira en aðeins einn hjá Randers, Bakken 46 fráköst gegn 23 hjá Randers og Bakken skoraði 16 þriggja stiga körfur gegn 3 frá Randers.
Í ljósi þessarar fréttar er áhugavert að athuga stærsta sigurinn á Íslandi. Stærsti sigur í úrvalsdeild karla sem var stofnuð 1978 er sigur Keflavíkur á Akranesi 5. mars 2000, 143-63 eða 80 stig. Stærsti sigurinn í efstu deild karla er þó sigur ÍKF á KFR b árið 1958 þegar ÍKF vann 106-22, 84 stig, í Hálogalandi.
Mynd/ Israel Martin er þjálfari Bakken Bears



