spot_img
HomeFréttirHvað segir kunnáttufólkið um bikarúrslitin?

Hvað segir kunnáttufólkið um bikarúrslitin?

Við fengum nokkra sérfræðinga til þess að rýna í kristalskúlur sínar fyrir bikarhelgina í Laugardalshöll. Sitt sýnist hverjum en ljóst er að fólk ætti að drífa sig í að tryggja sér miða fyrir Poweradebikarúrsitin því landsbyggðin er að hlaða í góða mætingu um helgina. Það verða Grindavík, Snæfell og Þór Þorlákshöfn utan af landi sem setja svip sinn á Laugardal um helgina og þá munu KR-ingar einnig fjölmenna svo það verður kátt í Höllinni.

Við lögðum neðangreindar spurningar fyrir nokkra góða aðila og hér koma svör sérfræðinganna.

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Hver verður MVP kvennamegin?
Hvernig fer karlaleikurinn?
Hver verður MVP karlamegin?


Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar á Egilsstöðum og viðtalsfræðingur

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Snæfell mun lyfta bikarnum í leikslok. Þær hafa sterkara lið og hafa verið að spila mjög vel í vetur, einnig tel ég að reynslan sem Ingi hefur fram yfir Danna muni vega þungt ef þetta verður spennuleikur, sem ég held reyndar að verði ekki raunin.
Grindavík mun lenda í vandræðum með Haiden Palmer eins og öll önnur lið, hún ásamt verðandi bóndakonunni á Helgafelli eru of stór biti fyrir Grindavík.
Ef Grindavík ætlar að eiga séns þá þurfa þær að koma með eitthvað vopn sem hægir á Haiden Palmer og fá framlag úr mörgum áttum sóknarlega. Íris Sverris þarf að mæta með byssurnar hlaðnar ef þetta á að vera spennandi.
Snæfellssigur og Haiden Palmer MVP

Hvernig fer karlaleikurinn?
Pressan í vesturbænum er mikil á sigur og allt annað í rauninni skandall. Ef KR fá eðlilegt framlag frá Craion, Ægi, Brynjari og Darra þá verður þetta lítið spennandi.
Varnarlega KR megin þá þurfa þeir að hægja á Vance Hall sem er frábær leikmaður.
Til þess að bikarinn fari í Þorlákshöfn þá þarf ansi mikið að gerast, Þórsarar þurfa að koma í veg fyrir allar auðveldar körfur inní teig og láta KR vinna fyrir hlutum. Einnig þurfa Þórsarar að vera mjög agaðir sóknarlega og slútta vel í góðu jafnvægi, ef ekki þá hlaupa KR-ingar þá í kaf.
Ég ætla að spá Þórssigri í miklum spennuleik þó líkurnar séu KR megin. Ég held að Þórsarar muni hitta á þrusu dag varnarlega og ná að hægja á KR-ingum og Raggi Nat stoppi Craion sem hefur oft átt erfitt með að spila gegn sér hávaxnari mönnum.
Einar mun ná að fá gott framlag frá Halldóri, Emil og Þorsteini auk þess sem Vance og Raggi Nat verða frábærir. Brynjar og Craion munu ekki ná sér á strik og verður það of dýrt fyrir KR.
Þórssigur og Raggi Nat MVP


Hildur Sigurðardóttir Snæfells-legend og kennari

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Kvennaleikurinn muna að sjálfsögðu enda með sigri Snæfellskvenna. Nú er einfaldlega komið að Snæfell að klára þennan bikar. Leikurinn verður þó jafn og spennandi og hart barist fram á loka mínútu. 72-68 eru lokatölur leiksins.

Hver verður MVP kvennamegin?
Haiden Palmer á eftir að fara á kostum í leiknum og valin MVP. Þó held ég að liðsheildin og gott framlag frá mörgum leikmönnum Snæfells eigi eftir að skila sigrinum.

Hvernig fer karlaleikurinn?
KR sigrar eftir harða baráttu 91-84. KR er einfaldlega með mun sterkara lið. Þó að Þórsarar hafi verið að stíga vel upp undanfarna leiki þá dugar það þeim ekki. Leikurinn verður þó jafn og skemmtilegur.
Bikarleikir eru yfirleitt mjög fín skemmtun og það er alveg ljóst að meistari eins og Raggi Nat á eftir að blómstra í Höllinni. Reikna þó með að Craion eigi eftir að skila góðum leik og verði maður leiksins.


Ragnar Gylfason núverandi leikmaður Laugdæla (og fyrrum leikmaður Vals)

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Danni hefur verið að gera góða hluti með Grindavíkurliðið í vetur og það er ekki tilviljun að þær eru komnar alla leið í bikarúrslitin. Mér finnst Ingi hins vegar einhvern veginn alltaf leggja stóru leikina rétt upp og Snæfell hefur verið sannfærandi að undanförnu. Held að þær hafi þetta.

Hver verður MVP kvennamegin?
Haiden Palmer

Hvernig fer karlaleikurinn?
Karlamegin þá hef ég verið mjög hrifinn af liðsheildinni sem Þór hefur náð skapa. Vance hefur verið frábær,  Raggi Nat er nátturulega 'most likeable' leikmaður deildarinnar, Grétar er að koma sterkur inn í liðið og allir að skila sínu hlutverki vel. Hins vegar hefur mér fundist, og finnst það gleymast í umræðunni um gæði leikmanna, að liðsheild KR hafi verið þeirra helsti styrkur. Spila vel fyrir hvern annan og vörnin unaður að horfa á þegar hún smellur rétt saman. Ég væri til í að sjá bikarinn á Suðurlandið en ég held að KR verði of stór biti fyrir Þórsarana.

Hver verður MVP karlamegin?
Mike Craion


Sævar Sævarsson lögfræðingur og varapenni

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Leikur Snæfells og Grindavíkur mun verða hin mesta skemmtun, a.m.k. fyrir Snæfell og þeirra stuðningsmenn. Þær munu líklega fara nokkuð þægilega í gegnum þennan leik enda með betri leikmenn auk þess sem leikmenn og þjálfari liðsins eru reyndari. Reynsla getur verið ofmetin en hún vegur þungt þegar gæðin eru líka meiri. Grindavíkurstúlkur hafa verið á uppleið og augljóst að Daníel Guðmundsson er að gera flotta hluti með þennan hóp. Ef Grindavík á að eiga möguleika í þessum leik þurfa þær að hitta á toppleik og vona að kaninn hjá Snæfell verði slakur.

Hver verður MVP kvennamegin?
Bryndís Guðmundsdóttir verður MVP í þessum leik. Hún fékk ekki bikarinn sem hún ætlaði sér í fyrra með Keflavík og þar sem hún fer sjaldan í Laugardalshöll án þess að taka eitthvað gyllt með sér heim held ég að hún komi dýrvitlaus til leiks.

Hvernig fer karlaleikurinn?
Ég held að það verði sama sagan karlamegin, þ.e. KR-ingar munu rúlla nokkuð auðveldlega í gegnum þennan leik. Ætli það verði ekki smá spenna til að byrja með og stemmningin mun fleyta Þór í gegnum spennandi fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik munu KR-ingar ranka við sér og átta sig á því að þeir eru mættir í úrslitaleikinn sem þeir  hafa "choke-að" í of oft sl. ár og taka leikinn yfir. Það er ekkert lið á landinu sem býr yfir jafn miklum gæðum og KR. Þrír fyrstu leikmennirnir af bekknum hjá þeim kæmust líklega í byrjunarlið allra annarra liða á landinu svo maður þyrfti að vera annaðhvort greindarskertur eða sólginn í að tapa peningum ef maður veðjaði gegn þeim í þessum leik.

Hver verður MVP karlamegin?
Maður þessa leiks verður Brynjar Þór Björnsson. Hann hefur ollið mér smá vonbrigðum í vetur enda bjóst ég við honum í besta formi lífs síns eftir vonbrigðin við að vera skilinn eftir heima á Eurobasket. Eigum við ekki að segja að hann skori 25 stig og þakki mér fyrir þau þar sem ég ákvað að minna hann á Eurobasketvonbrigðin!


Daníel Rúnarsson ljósmyndari og fjölmiðlamaður

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Ingi er að fínstilla Snæfellsvélina betur og betur. Karlaliðið er ákveðin vonbrigði þetta tímabilið en stelpurnar ætla að halda uppi heiðri Stykkishólms. Hólmurinn heillar og þangað fer bikarinn í ár. Partí á Narfanum.

Hver verður MVP kvennamegin?
Haiden Denise Palmer húrrar MVP bikarnum á loft í lok leiks, en #TheRealMVPs í Snæfellsliðinu eru Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur. Kvenkyns útgáfurnar af Darra Hilmarssyni.

Hvernig fer karlaleikurinn?
Að mínu mati er ekkert lið sem getur sigrað KR í seríu, en bikarúrslitin er bara einn leikur og þar getur allt gerst. Verður verulega áhugavert að sjá hvaða útgáfa af Ragga Nat mætir til leiks. Ef hann stoppar Craion einsog í fyrsta leik liðanna í deildinni þá getur allt gerst. En ég held einhvernveginn að bikarhungrið í KR sé of mikið og menn mæti #turnt.

Hver verður MVP karlamegin?
Ef þetta fer eins og ég spái, KR taki titilinn, þá verður Craion MVP. Hann er #MajorKey í KR liðinu. Ef Þór tekur þetta þá verður það vegna þess að Raggi Nat mætir í beastmode og þá er hann MVP.


Baldur Már Stefánsson framkvæmdastjóri KKD Breiðabliks

Hvernig fer kvennaleikurinn?
72-70 fyrir Snæfell.

Hver verður MVP kvennamegin?
María Björnsdóttir, Snæfell

Hvernig fer karlaleikurinn?
83-80 fyrir KR

Hver verður MVP karlamegin?
Ægir Þór Steinarsson, KR


Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari karlaliðs Hamars
(Hallgrímur er s.s. til vinstri á myndinni, til hægri er Oddur Benediktsson að kalla inn leikkerfi eða á leigubíl)

Hvernig fer kvennaleikurinn?
Snæfell vinnur Grindavík í þrælskemmtilegum leik 74-70.

Hver verður MVP kvennamegin?
Haiden Palmer verður valin MVP kvennamegin, mun bera höfuð og herðar yfir aðra leikmenn.

Hvernig fer karlaleikurinn?
Þór vinnur KR í mögnuðum leik 91-89.

Hver verður MVP karlamegin?
Ég spái að Emil Karel "Emilinator" eða Ragnar "Dunkin Donut" Bragason komi á "óvart" og verði valinn MVP.

Miðasala á úrslit Poweradebikarsins fer fram á tix.is

Fréttir
- Auglýsing -