spot_img
HomeFréttirGjá á milli sóknar og varnar hjá íslenska liðinu

Gjá á milli sóknar og varnar hjá íslenska liðinu

Ísland og Portúgal áttust við í vinabæ Grindavíkur, Ilhavo, í Portúgal í kvöld. Heimakonur höfðu sigur í miklum slag og skildu því íslenska liðið eitt eftir á botni E-riðils í forkeppni EuroBasket 2017. Lokatölur leiksins voru 68-56 en Ísland byrjaði vel en heimakonur settust við stýrið næstu þrjá leikhluta og mörðu spennusigur.

Þó íslenska liðið hafi átt sterka kafla í leiknum með góðum varnarleik og mikilli baráttu í fráköstunum (47-40) þá vantaði meira áræði í sóknarleikinn, skotin voru ekki að detta og 24 tapaðir boltar voru íslenska liðinu dýrkeyptir. Portúgalir skoruðu mikið inni í teignum og hægt en bítandi nagaði þetta allt saman undan stoðunum í leik íslenska liðsins og Portúgal fagnaði sínum fyrsta sigri í E-riðli undankeppninnar. Tala má um einskonar gjá milli sóknar og varnar íslenska liðsins í kvöld, vörnin sterk og flott, allir að vinna vel saman en á sóknarendanum var tregða og boltinn ekki að detta. 

 

Portúgalir gerðu fyrstu stig leiksins en þær Helena Sverrisdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir áttu næst leik með tveimur þristum og Ísland komst í 2-6. Nokkur titringur var í liðunum og þeim gekk ekkert allt of vel að skora í fyrri hálfleik. Teigskotin hjá íslenska liðinu voru ekki að detta nægilega vel en Ísland leiddi engu að síður 11-14 eftir fyrsta leikhluta þar sem Sandra Lind Þrastardóttir var með sterka innkomu af bekknum.

 

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir mætti með hvell inn í annan leikhluta, skoraði fyrstu fimm stig íslenska liðsins sem komst í 13-19. Vörn íslenska liðsins var góð, samheldin og ákveðin en okkar konur voru að ströggla smá á sóknarendanum, ekki nægilega grimmar upp að körfu Portúgala. Heimakonur áttu gott áhlaup í öðrum leikhluta og náðu að jafna metin 21-21. Helena Sverrisdóttir skoraði í teignum og fékk villu að auki, setti vítið og minnkaði muninn í 26-25 en Portúgalir áttu lokaorð sem sveið. Fimm sekúndur eftir af fyrri hálfleik og heimakonum tókst að bruna upp allan völlinn, sauma sig í gegnum íslensku vörnina og skora og staðan því 29-25 fyrir Portúgal í hálfleik. 

 

Helena Sverrisdóttir var með 14 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar í íslenska liðinu í hálfleik, næst henni var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 5 stig og 1 frákast. 

Skotnýting liðanna í hálfleik:

 

Ísland: Tveggja 35,7% – þriggja 27,3% og víti 66,7% 

Portúgal: Tveggja 41,4% – þriggja 20% og víti 50%

 

Pálína María Gunnlaugsdóttir opnaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 29-28 en eftir það gerðist lítið hjá liðunum sóknarlega. Eftir næstum sjö mínútna leik í þriðja leikhluta var staðan 7-5 fyrir Portúgal. Hver karfa vó því þungt í leikhlutanum en íslenska liðinu tókst aðeins að gera níu stig í þriðja leikhluta. Íslenska liðinu sárvantaði að finna þessa stóísku ró hins mikla stríðsmanns, of mikill hamagangur var í okkar konum í námunda við körfuna. Portúgal lokaði svo þriðja leikhluta með stemmningskörfu eins og gerðist í fyrri hálfleik, fengu körfu og villu að auki og fóru fjörugar inn í fjórða leikhluta með 43-34 forystu. 

 

Varnarleikurinn sem hafði verið aðalsmerki liðanna fyrstu þrjá leikhlutana gaf eftir í herbúðum beggja í fjórða leikhluta. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir setti tvo sterka þrista í byrjun leikhlutans og minnkaði muninn í 46-40 en alltaf tókst Portúgal að slíta sig frá að nýju. Ívar Ásgrímsson þjálfari íslenska liðsins hafði sitt að segja við dómara leiksins en undir lok þriðja og í byrjun fjórða bar nokkuð á því sem kalla mætti „make up“ villur sem Portúgalir nutu góðs af. 

 

Sama hvað íslenska liðið reyndi þá komst það ekki nærri, bensínið var af skornum skammti og sóknartakturinn var vandfundinn. Okkar konur fá prik fyrir elju og vinnusemi í vörninni, sigur í frákastabaráttunni og þær Helena og Sigrún Sjöfn átti góða spretti sóknarmegin en skortur á fjölbreyttara framlagi í sókninni var áþreifanlegur í kvöld. 

 

Helean lauk leik með 17 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar og við hæfi að óska henni til lukku með sextugasta landsleikinn sinn á ferlinum. Þá var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 12 stig og 3 fráköst og Sandra Lind Þrastardóttir átti sterkar rispur en henni leiðist ekki að berjast…sem er vel. Margrét Kara Sturludóttir kom með 4 stig og 8 fráköst af bekknum og þá gerði Bryndís Guðmundsdóttir 8 stig og tók 4 fráköst. 

Í kvöld mættust einnig Ungverjar og Slóvakar þar sem Ungverjar höfðu eins stigs sigur 65-64 og því hafa Ungverjar tekið toppsæti riðilsins. Ísland og Ungverjaland mætast einmitt í Laugardalshöll þann 24. febrúar næstkomandi. Alexandria Quigley gerði 27 stig í liði Ungverja í kvöld en téð Alexandria er WNBA leikmaður og var ekki með Ungverjum í fyrri leiknum gegn Íslandi. Hún lék m.a. með Helenu Sverrisdóttur í Good Angels Kosice. 

Myndasafn

Tölfæði leiksins – Portúgal 68-56 Ísland

 

Myndir/umfjöllun – Jón Björn Ólafsson 

Fréttir
- Auglýsing -