Úrslitakeppnin í háskólakörfunni í Bandaríkjunum er handan við hornið og línur eru þegar farnar að skýrast í nokkrum tilfellum. Kristófer Acox og Martin Hermannsson áttu báðir góða leiki með sínum skólum í nótt en urðu engu að síður að sætta sig við tap á meðan Gunnar Ólafsson og Dagur Kár Jónsson nældu sér í sigur og heimaleik í úrslitum NEC-riðilsins. Af nægu er að taka í sbv íslensku nemana vestanhafs og er þeim öllum gerð ítarleg skil hér að neðan.
1. deild
Southern Conference (Kristófer Acox)
Western Carolina 73-62 Furman
Kristófer Acox kláraði deilarkeppni SoCon riðilsins með tvennu fyrir Furman, 11 stig og 10 fráköst en þá var hann einnig með 2 varin skot og eina stoðendingu á 36 mínútum en hann lék lengst allra hjá Furman í leiknum. Devin Sibley var stigahæstur hjá Furman með 24 stig en ósigur á útivelli er nokkuð sem Furman hefur fengið nóg af þessa vertíðina. Ólíku er saman að jafna með heimavöllinn þar sem Furman eru ósigraðir. Deildarkeppninni er lokið og hafnaði Furman í 3. sæti SoCon riðilsins með 11 sigra og 7 tapleiki og var eina lið riðilsins sem vann alla sína heimaleiki. Tveir leikir eru eftir í riðlinum sem fram fara í nótt og þá skýrist endanlega hjá Kristó og félögum hvernig úrslitakeppni riðilsins veðrur skipuð en hún fer fram dagana 4.-7. mars í Asheville í Norður-Karólínu.

Northeast Conference (Martin Hermannsson, Gunnar Ólafsson, Dagur Kár Jónsson)
LIU 83-88 Bryant
Martin Hermannsson og félagar máttu fella sig við ósigur í sínum síðasta deildarleik í NEC-riðlinum er LIU tapaði 83-88 gegn Bryant skólanum. Martin daðraði við þrennu í leiknum með 20 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar og þá var hann einnig með tvo stolna bolta. Menn hjá LIU hafa væntanlega ekkert verið of sáttir með tapið því Bryant er í næstneðsta sæti NEC-riðilsins. Þrátt fyrir ósigurinn komst LIU áfram í úrslitakeppni NEC riðilsins og mun mæta Sacred Heart skólanum í úrslitakeppni riðilsins þann 2. mars næstkomandi.

St. Francis 55-49 Mount St. Mary´s
Gunnar Ólafsson skoraði 7 stig, tók 3 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal 3 boltum þegar St. Francis lokuðu deildarkeppninni sinni í NEC-riðlinum með sigri á Mount St. Mary´s. Gunnar var í byrjunarliðinu en að þessu sinni kom Dagur Kár Jónsson af bekknum og fékk að spreyta sig í 3 mínútur en skoraði ekki. Þessi sömu lið munu mætast í úrslitum NEC-riðilsins þann 2. mars næstkomandi þar sem St. Francis verður á heimavelli en þeir Gunnar, Dagur og félagar í Terriers lokuðu deildarkeppninni í NEC-riðlinum með 11 sigrum og 7 tapleikjum en Martin og félagar í LIU voru neðar í riðlinum með 9 sigra og 9 tapleiki.

Metro Atlantic Athletics Conference (Kristinn Pálsson)
Marist 91-77 Quinnipiac (26. feb)
Síðasti deildarleikur Marist fór fram á föstudagskvöld þegar liðið vann 91-77 sigur á Quinnipiac skólanum. Marist hafnaði í ellefta og neðsta sæti MAAC riðilsins með 4 sigra og 16 tapleiki. Á föstudagskvöld gerði Kristinn 7 stig, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á 36 mínútum í liði Marist.
Þetta fyrsta háskólaár Kristins var hann þriðji stigahæsti leikmaður liðsins með 8,7 stig að meðaltali í leik og 4,4 fráköst. Kristinn var næsthæstur í mínútum á tímabilinu með 32,8 mínútur að meðaltali í leik og ljóst að hann hefur fengið risavaxið hlutverk hjá Marist á sínu fyrsta ári. Nú bíður Marist útsláttarleikur um það að komast inn í úrslitakeppni MAAC riðilsins en þar mæta þeir Manhattan skólanum, það lið sem vinnur fer áfram í 8-liða úrslit og mætir Siena úr 3. sæti í fyrstu umferðinni. Útsláttarleikirnir fara fram þann 3. mars næstkomandi.
2. deild

Sunshine State Conference (Elvar Már Friðriksson)
Barry 82-69 Eckerd
Elvar Már gerði 15 stig í þessum sigri Barry í nótt og bætti við 9 stoðsendingum og 3 fráköstum á 34 mínútum. Barry vann riðilinn og mætir Florida Southern þann 2. mars næstkomandi í úrslitakeppni Sunshine State riðilsins. Flordia Southern hafnaði í 8. sæti SSC riðilsins með 5 sigra og 11 tapleiki en Elvar og félagar í Barry unnu 12 leiki og töpuðu 4 rétt eins og Eckerd og Rollins skólarnir en Barry var með besta árangurinn innbyrðis milli þessara þriggja liða.

Columbus State (Matthías Orri Sigurðarson)
Columbus State vann vesturdeildina í Peach Belt riðlinum, Matthías Orri og félagar luku deildarkeppninni með 14 sigra og 5 tapleiki og í heild var tímabilið þeirra 20-6. Í kvöld hefst úrslitakeppnin í Peach Belt riðlinum þar sem Columbus tekur á móti Francis Marion skólanum sem kemur úr austurdeild riðilsins en Francis Marion endaði í 4. sæti í austurriðlinum.
*Hér að ofan var drengjunum gerð skil en í næsta pistli tökum við stöðuna á stelpunum sem eru á ekki ósvipuðum slóðum og strákarnir með deildarkeppnirnar að fjara út og úrslitakeppnin að hefjast.



