spot_img
HomeFréttirGjafmildasti maður landsins farinn til Spánar

Gjafmildasti maður landsins farinn til Spánar

Gjafmildasti leikmaður Domino´s-deildar karla hélt út til Spánar í morgun og ljóst að Íslands- og bikarmeisturum KR mun svíða þetta brotthvarf því Ægir Þór Steinarsson hefur verið að leika manna best þessa vertíðina. Stóra spurningin er hvort röndóttir eigi raunhæfa möguleika á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð eða hvort þessi blóðtaka hafi einfaldlega verið of mikið?

„Maður kemur í manns stað“ og fleiri góðar línur eru oft notaðar við ekki ósvipuð tilefni og þó Ægir Þór sé aðeins í 34. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar með 11,37 stig að meðaltali í leik þá er ótalmargt annað sem hann hefur fram að færa eins og fólki ætti að vera vel kunnugt. 

 

Ægir leiðir deildina í stoðsendingum með 6,84 stoðsendingar að meðaltali í leik og hefur skilað að jafnaði 30,19 mínútum hvern leik. Þessar mínútur fara nú á ekki ómerkari menn en Pavel Ermolinski og Björn Kristjánsson svo KR-ingar eru ekki á flæðiskeri staddir hvað varðar leikstjórnendur en höldum samt áfram. 

 

Hvorki Björn né Pavel munu skila varnarvinnunni sem Ægir hefur verið að sinna enda nokk frábrugðnir leikstjórnendur frá Ægi sem virðist vart blása úr nös þó hann pressi menn um víðan völl. Sá þáttur einn vegur þungt í dýpt varnarleiks KR sem þó eru áfram erfiðir innan við þriggja stiga línuna enda samstilltir og reyndir og stutt í hjálpina. Þó myndu allir röndóttir vilja hafa Ægi á toppnum að skafa burt sekúndur af skotklukku andstæðinganna…það er t.d. þáttur sem þessi blessaða tölfræði hefur aldrei náð að dekka og góðum varnarmönnum ekki þökkuð sú vinna á pappírum.

 

Það kæmi ykkur kannski á óvart en Ægir er í 34. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar en hann er ofar í fráköstum! Þar situr hann í 31. sæti með 5,47 fráköst að meðaltali í leik og er í 23. sæti yfir framlagshæstu leikmenn deildarinnar. Ægir klukkar sig svo inn í 5. sæti yfir flesta stolna bolta með 2,05 að meðaltali í leik. 

 

Í stuttu máli sagt er KR að missa þann leikmann sem er í besta formi allra hjá Íslands- og bikarmeisturunum, það er engin pæling heldur staðreynd. Síðustu ár hafa einstaka leikmenn að frátöldum Craion ekki verið að sprengja upp tölfræðiblöðin, framlagið hefur komið víða að í djúpum leikmannahópi en nú eru allir einu og tveimur árum eldri og Ægir var akkúrat sú orka sem KR þurfti til þess að flestir á kaffistofuspjallinu myndu gefa sér að enginn gæti dansað með KR í seríu í úrslitakeppninni.

 

Það gerðu einnig margir á síðustu leiktíð en þá voru KR-ingar tveimur skotum frá því að detta út í undanúrslitum. Það sem er hinsvegar afar fróðlegt við stöðu Íslands- og bikarmeistaranna er hvernig unnið verður úr málunum. Reynsla og gæði að takast á við að missa byrjunarliðsmann, stoðsendingahæsta leikmann deildarinnar og manninn í besta forminu. 

 

Fátt ef nokkuð kemur í veg fyrir að KR kokgleypi í sig deildarmeistaratitilinn og tryggi sér þar með heimaleikjaréttinn í sínu sterka vígi sem DHL-Höllin er. Hitt er svo annað mál hvort menn séu jafn tilbúnir til þess að gefa þeim hverja seríuna á fætur annarri í kaffistofuspjallinu. 

 

KR hefur aðeins tapað þremur deildarleikjum á tímabilinu og í tveimur af þremur þessara leikja var Ægir einn bjartasti punkturinn við leik liðsins svo sá sem var að „performera“ hvað best í verstu frammistöðum toppliðsins á tímabilinu er á förum. 

 

Ægir í tapleikjum KR 

 

Stjarnan 80-76 KR

7 stig, 8 fráköst, 5 stosðendingar

 

Keflavík 89-81 KR

Næststigahæstur með 17 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar

 

KR 73-74 Stjarnan

Næststigahæstur með 19 stig, 4 fráköst, 7 stoðsendingar og 8 stolna bolta. 

Mynd/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -