Stefan Bonneau lék sinn fyrsta leik ef svo má að orði komast í gærkvöldi þegar B lið Njarðvíkingar tók á móti ÍB. Svo fór að Njarðvíkingar höfðu 9 stiga sigur að lokum en þetta var toppslagur 2. deildar. Ekki var annað að sjá en að Bonneau sé allur að koma til. Hreyfingar hans að sjálfsögðu örlítið ryðgaðar en þó ótrúlega sprækur. En augljóslega vantar uppá pústið hjá kappanum þar sem hann kom á bekkinn eftir einhverjar mínútur nokkuð andstuttur.
Þetta var fyrsta 5 á 5 sem kappinn spilar síðan hann sleit hásin í september sl. en hann hefur hinsvegar verið duglegur á æfingum hjá Njarðvík að koma sér í form hægt og bítandi. Búast má við því að kappinn fái grænt ljós að taka á því að fullu um miðjan mars.



