Þór Þorlákshöfn og Njarðvík mæta ekki fullmönnuð til leiks í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld í lokaleik 20. umferðar Domino´s-deildar karla. Áður hefur komið fram að Haukur Helgi Pálsson verði ekki með Njarðvíkingum í kvöld og þá verður Þorsteinn Már Ragnarsson á tréverkinu hjá Þór vegna meiðsla.
Þorsteinn meiddist á hné á æfingu síðastliðinn mánudag og situr af sér leik kvöldsins hið minnsta. Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórsara staðfesti við Karfan.is í morgun að mögulega gæti farið svo að Þorsteinn verði látinn sitja fram að úrslitakeppninni vegna meiðslanna.
„Það er stutt í úrslitakeppnina og gæti farið svo að hann verði hvíldur þessa þrjá leiki sem Þór á núna næstu sjö dagana,“ sagði Einar en Þorsteinn hefur verið að glíma við vandræði þessa vertíðina en hann var t.d. ekki 100% þegar Þór og KR mættust í bikarúrslitum í Laugardalshöll.
Þorsteinn Már hefur verið með 8,8 stig, 4,3 fráköst og 1,7 stoðsendingar að meðaltali í leik með Þór þetta tímabilið.



