Stefán Karel Torfason leikmaður Snæfells og Trausti Eiríksson leikmaður ÍR lentu í samstuði í viðureign liðanna í gærkvöldi. Talið er að Stefán Karel hafi hlotið vægan heilahristing en Trausti hlaut skurð innan á vör og uppi í góm. ÍR hafði öruggan sigur í leiknum og með þeim sigri felldu þeir endanlega nýliða FSu og Hött.
Trausti lék ekki meira í gær eftir samstuðið og fengu þeir báðir spor í sig því saumuð voru tvö spor í höfuðið á Stefáni Karel sem fékk vægan heilahristing. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells taldi líklegast að Stefán yrði ekki með næsta sunnudag þegar Snæfell tekur á móti Stjörnunni í Stykkishólmi.
Fimm eða sex spor voru saumuð í Trausta sem sagði við Karfan.is að þessu hefði fylgt smá hausverkur en að öðru leyti væri hann stálsleginn.
Mynd/ Stefán Karel gæti misst af næsta leik Hólmara.



